Bragð er að, þá barnið finnur

Fjármálaráðherra hefur lengstum haft gott skjól af Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði. Gagnrýni þessara samtaka er þeim mun þyngri þegar hún kemur fram, því bragð er að, þá barnið finnur.

Fyrir skömmu birtu Samtök atvinnulífsins greinargerð þar sem fullyrðingar fjármálaráðherra um að hvorki þyrfti að grípa til niðurskurðar né skattahækkana voru dregnar í efa. Ástæðan var sú að samtökin sáu ekki að sú forsenda stæðist að vextir af lánum ríkissjóðs yrðu mun lægri en hagvöxtur.

Nú hefur Viðskiptaráð sent umsögn um gjaldeyrishaftafrumvarp fjármálaráðherra. Þar er tekið svo djúpt í árinni að staðhæft er að fjármálaráðherra fjalli í greinargerð „með léttúð um það sem á að vera algjört neyðarúrræði og ætti aðeins að vera gripið til þegar engir aðrir valkostir eru í stöðunni.“

Ljóst er að Viðskiptaráð slengir ekki fram gagnrýni af þessu tagi nema það telji að fjármálaráðherra hafi farið út af sporinu. Viðskiptaráð dregur réttilega fram að erlend fjárfesting hafi sjaldan verið jafn mikilvæg fyrir atvinnulífið og verðmætasköpunina eins og nú. Óskynsamlegt sé að innlendir fjárfestar eins og lífeyrissjóðir bindi eignir sínar við eitt lítið hagkerfi. Til mótvægis sé óhjákvæmilegt að laða erlenda fjárfesta til landsins.

Ráðið sér ekki að ráðherra hafi svo mikið sem skoðað hvaða áhrif varanlegar heimildir til fjármagnshafta kynnu að hafa á vöxt og viðgang þjóðarbúskaparins.

Við höfum eins og aðrar vestrænar þjóðir framselt mikið vald til Seðlabankans. Nú vill fjármálaráðherra framselja til bankans allt vald svo hægt verði að setja á jafn umfangsmikil höft og eftir hrun. Hér eftir verða það því ákvarðanir embættismanna, en ekki lýðræðislega kjörinna fulltrúa fólksins, sem ráða því hvort neyðarráðstöfunum af þessu tagi verður beitt. Viðskiptaráð gagnrýnir sérstaklega þessa tilfærslu á valdi.

Gild rök eru fyrir því að losa stjórnmálamenn undan ábyrgð á vaxtaákvörðunum. En til hvers er lýðræðið ef Alþingi á ekki að bera ábyrgð á almennum gjaldeyrishöftum? Þegar samkeppnishæfni Íslands er undir

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 31. mars 2021