25 mar Réttlæti og hagkvæmni
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi standa einarðlega vörð um reglur, sem tryggt hafa meiri hagkvæmni í rekstri íslensks sjávarútvegs en þekkist annars staðar. Sú verðmætasköpun sem þetta kerfi hefur skapað skiptir miklu máli fyrir efnahagslíf landsins. Hagsmunir heildarinnar og landsbyggðarinnar mæla eindregið með því að henni verði ekki raskað.
Ágreiningur okkar við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi snýst um annað. Þau telja að fiskimiðin séu eina auðlindin í þjóðareign þar sem hagkvæmni og réttlæti geti ekki farið saman. Hér erum við á öndverðum meiði.
Lykillinn er enginn galdrastafur
Lykillinn að þeirri lausn er enginn galdrastafur. Hann er einfaldlega sá sami og notaður er til að tryggja hagkvæmni og réttlæti við nýtingu allra annarra náttúruauðlinda, bæði hér heima og annars staðar.
Þessu tvöfalda markmiði má sem sagt ná með því að veita þröngum hópi einkarétt á auðlindum til nýtingar í tiltekinn tíma gegn gjaldi. Einkaleyfið felur í sér takmörkuð eignarréttindi. Sanngjarnt gjald fyrir slík réttindi endurspeglast síðan í verði þeirra.
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að gera sjávarútvegsmálin að einu helsta deiluefni næstu kosninga. Hún hefur fallist á þá skoðun Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi að fiskistofnar við Ísland séu eina auðlindin í veröldinni sem ekki sé unnt að nýta þannig að saman fari hagkvæmni og réttlæti.
Tvívegis hafa flokkar ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili fellt tillögur frá Viðreisn og fleiri flokkum um að tímabinda nýtingarréttinn í almennum lögum. Stefnu SFS skal frekar fylgt.
Ríkisstjórnin velur ófrið
En kosningastríðshanskanum var þó ekki kastað fyrr en formaður VG flutti tillögu að nýju stjórnarskrárákvæði um auðlindir í þjóðareign. Þar er ekki gert ráð fyrir grunnreglunni um tímabindingu nýtingarréttar. Í stað þess ætlar ríkisstjórnin að veita almenningi falska öryggiskennd um sjálfa þjóðareignina.
Nýja stjórnarskrárákvæðið viðheldur áfram þeirri sérreglu í almennum lögum að einkaréttur til nýtingar fiskimiðanna sé ótímabundinn. Meðan öll önnur einkaréttindi eru eðlilega háð mismunandi tímamörkum.
Þegar festa á óréttlætið í sessi með nýju stjórnarskrárákvæði af þessu tagi er óhjákvæmilegt að kjósendur fái að segja álit sitt. Sérregla um áframhaldandi ranglæti við úthlutun aflaheimilda er orðið að meginmáli í komandi kosningum.
Stjórnarskrárákvæði sem hnekkir ekki ótímabundnum einkarétti almennra laga er ekki svar við kröfum almennings um réttlæti. Það er bara jákvætt svar við beiðni Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um að raska ekki þeirra sérhagsmunum.
Ætla kjósendur að veita núverandi ríkisstjórnarflokkum umboð til að festa þessa reglu í stjórnarskrána?
Stefna Viðreisnar
Stefna Viðreisnar í þessum efnum er mjög skýr.
Í fyrsta lagi viljum við tryggja í stjórnarskrá að meginreglan um eðlilegt gjald fyrir tímabundinn einkarétt nái til allra auðlinda þjóðarinnar. Það tryggir réttlæti.
Í öðru lagi viljum við að í almennum lögum verði kveðið á um tímalengd einkaréttarins í sjávarútvegi eins og í öðrum auðlindagreinum. Við höfum talað um langan tíma, 20 til 25 ár. Það tryggir nauðsynlegan varanleika.
Í þriðja lagi teljum við að gjaldið eigi að endurspegla verðmæti einkaréttarins. Til að finna eðlilegt endurgjald er markaðurinn besta lausnin. Hann stuðlar að auknu gegnsæi og minni hættu á að auðlindagjald ráðist af hagsmunaþrýstingi og pólitískum tengingum. Gerðir verða einkaréttarlegir samningar um 4 til 5% veiðiheimilda á hverju ári. Með þessu móti má tryggja nauðsynlegan stöðugleika.
Í fjórða lagi viljum við varðveita gildandi reglur um framsal aflaheimilda. Þær eru lykillinn að hagkvæmninni.
Í fimmta lagi viljum við nýta hluta af auðlindagjaldinu til nýsköpunar atvinnulífs á landsbyggðinni. Hér höfum við nefnt innviðasjóð. Fjölmörg dæmi eru um það á undanförnum árum hvernig hreyfanleiki aflaheimilda hefur kippt efnahagslegum grundvelli undan heilu byggðarlögunum. Það er því eðlilegt og sanngjarnt að hluta hagnaðarins af sameiginlegri auðlind sé varið til að bæta það.
Málamiðlun hafnað
Við gerum okkur grein fyrir að gera má tímabundna samninga með föstu gjaldi þó að það sé flóknara en markaðslausnin.
Á þessu kjörtímabili buðum við upp á slíka málamiðlun ásamt fleiri flokkum á Alþingi. Skemmst er frá því að segja að ríkisstjórnin kaus að hafna því boði.
Einnig lögðum við til málamiðlun, sem styrkt hefði smábátana við úthlutun varanlegrar aflahlutdeildar í makríl. Henni var líka hafnað.
Hvers vegna hafnaði ríkisstjórnin öllum málamiðlunum? Hverra hagsmuna er hún að gæta?
Það er kominn tími á breytingar
Aðalatriðið er þetta: Með engum rökum er unnt að halda því fram að réttlæti af þessu tagi og hagkvæmni fari ekki saman.
Meðan ríkisstjórnin viðurkennir ekki þessa almennu grundvallarkröfu um tímabundinn einkarétt, sem nýting allra annarra auðlinda í þjóðareign byggist á, er hætt við varanlegum ófriði um sjávarútveginn.
Það er kominn tími til að breyta því. Þar eru ekki bara hagsmunir heildarinnar sem eru í húfi, heldur einnig útgerðarinnar og ekki síður alls fólksins á landsbyggðinni.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. mars 2021