19 mar Skiptimyntin Reykjavík
Ríkisstjórnin er í bobba með sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Það stefnir til dæmis í að stjórnin verði gerð afturreka með frumvarp um lögbundna sameiningu sveitarfélaga sem og frumvarp um hálendisþjóðgarð en bæði málin hafa verið gagnrýnd fyrir að ganga of nærri rétti sveitarfélaga til að ráða eigin málum. Í hópi þeirra sem spyrna hvað fastast við fótum til varnar þessum rétti sveitarfélaga eru stjórnarþingmenn, jafnvel ráðherrar.
Nú liggur hins vegar fyrir Alþingi mál frá samgönguráðherra sem hlotið hefur brautargengi í þingflokkum stjórnarflokkanna, mótmæla- og fyrirvaralaust að því er virðist. Í því máli felst heimild til samgönguráðherra til að setja skipulagsreglur fyrir flugvelli sem gengju framar skipulagi sveitarfélaga. Reykjavík yrði þannig einfaldlega svipt skipulagsvaldi á Reykjavíkurflugvelli. Í því felst grundvallarbreyting sem er þvert á núgildandi lög og um leið þvert á samkomulag ríkis og borgar um framtíðarskipulag innanlandsflugsins.
Skipulagsvald sveitarfélaga er vitaskuld ekki án takmarkana, en með þessu er verið að setja það fordæmi að almennar skipulagsreglur geti vikið lögum til hliðar. Hér er því miður ekki um eina áhlaup ríkisstjórnarinnar á sjálfsákvörðunarrétt Reykjavíkurborgar að ræða, en þetta er það alvarlegasta.
Í ríkisstjórn sitja nú fimm þingmenn Reykjavíkur þó þess sjáist sannarlega ekki glögg merki. Einn ráðherra í viðbót hefur lýst yfir framboði í Reykjavík í næstu kosningum. Að auki eiga Reykvíkingar fimm aðra þingmenn í stjórnarflokkunum þremur.
Kannski gilda önnur lögmál um Reykjavík hjá ríkisstjórnarflokkunum þremur. Allavega virðist umhyggjan fyrir sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga ekki ná til höfuðborgarinnar. Tengist það kannski því að þar stýra aðrir flokkar í umboði Reykvíkinga? Getur verið að VG sé tilbúið að fórna hagsmunum borgarbúa fyrir loforð um áframhaldandi setu í ríkisstjórn eftir kosningar? Eru hagsmunir Reykvíkinga bara skiptimynt hjá þessum þremur flokkum?