Viðreisn með höftum eða frelsi

Þorsteinn Pálsson

Galdurinn við myndun núverandi ríkisstjórnar var að leggja hugmyndafræðina til hliðar. Lausnin var: Praktísk viðbrögð þegar mál koma upp en að öðru leyti kyrrstaða um flest, nema ríkisvæðingu þeirrar heilbrigðisþjónustu, sem almannaheillasamtök hafa séð um.

Ríkisstjórnin tók við í blússandi meðvindi. Við slíkar aðstæður getur pólitísk uppskrift af þessu tagi gengið.

Framtíðin

Þegar kemur að kosningum í haust verður tími skammtímaráðstafana og kyrrstöðu aftur á móti liðinn. Viðreisn efnahagslífsins og ríkisfjármálanna til lengri tíma er með öðrum orðum komin á dagskrá. Það er langtímaverkefni. Menn þurfa að horfa áratug fram í tímann.

Viðreisn efnahagslífsins ræðst ekki af því hvaða flokkur kemur með flestar hugmyndir um smáskammtalækningar eða styrki hér og þar. Framtíðarstörfin ráðast ekki af ríkisstyrkjum. Það sem ræður úrslitum er sá hugmyndafræðilegi grundvöllur, sem menn ætla að byggja á.

Peningamálin ráða mestu um það hvernig okkur tekst að auka framleiðni í atvinnulífinu, fjölga störfum og bæta lífskjör almennings. Þau eru kjölfestan í búskap þjóðarinnar.

Svarið er: gjaldeyrishöft

Einmitt í þessu ljósi er eftirtektarvert að ríkisstjórnin hefur loks kynnt til sögunnar hugmyndafræðina, sem hún ætlar að byggja framtíðina á. Aðstæður hafa breyst þannig að ekki verður lengur undan því vikist að sigla eftir ákveðnu striki.

Hugmyndafræðilegt svar ríkisstjórnarinnar er: Gjaldeyrishöft. Hún hefur nú lagt fram frumvarp í þessum tilgangi. Þar fá Seðlabankinn og fjármálaráðherra allar hugsanlegar heimildir til að setja á hvers kyns gjaldeyrishöft án takmarkana og pólitískrar umræðu.

Hér er ekki um að ræða skammtímaráðstafanir vegna yfirstandandi kreppu. Þetta á að vera varanlegur framtíðargrundvöllur peningamálastjórnunar í landinu. Og ábyrgðin á framkvæmdinni er færð frá pólitíkinni til embættismanna.

Aðrir vegir færir

Stjórnarflokkarnir hafa loks komist að þeirri niðurstöðu, sem reyndar hefur lengi verið skrifuð á vegginn, að frjáls viðskipti í svo litlu sjálfstæðu peningakerfi ganga ekki upp. Það er einfaldlega ekki hægt að stýra peningamálunum og stefna að stöðugleika nema með meiri eða minni gjaldeyrishöftum.

Króna og frjáls viðskipti eru einfaldlega andstæður. Um þetta er reyndar ekki mikill ágreiningur.

Deilurnar snúast um hitt að það eru aðrir vegir færir. Það er hægt að tryggja jafn frjáls milliríkjaviðskipti fyrir atvinnulíf og heimili og grannríkin njóta. En það kallar á annars konar hugmyndafræði.

Afleiðing þröngsýni

Nú er það svo að ríkisstjórnin segir að frelsi sé hennar fyrsta val. Höftin séu neyðarúrræði. En með því að fela Seðlabankanum og fjármálaráðherra varanlegt vald í þessum efnum er verið að segja að þau verði samt sem áður daglegt brauð, hugsanlega í misríkum mæli frá einu ári til annars.

Ríkisstjórnin virðist reikna með að þeim þurfi að beita það títt að of tímafrekt yrði að bíða eftir samþykki Alþingis í hvert skipti. En kannski er valdframsalið líka liður í að gera höftin að náttúrulögmáli en ekki pólitík.

En hvers vegna velur ríkisstjórnin að byggja viðreisn efnahagslífsins næsta áratug á slíku neyðarúrræði? Ástæðan er þröngsýni. Hugmyndafræði ríkisstjórnarinnar leyfir ekki fjölþjóðasamvinnu um peninga- og gjaldmiðilsmál.

Afleiðingin er sú að ríkisstjórnin á ekki annarra kosta völ en að velja höft fremur en frelsi.

Þurfum frjálslynda hugmyndafræði

Haftaheimildirnar einar og sér munu fæla erlenda fjárfesta frá landinu. Beiting þeirra hamlar nýsköpun. Höftin leiða líka til mismununar. Undanþágur eru óhjákvæmilegar. Þeim fylgir spilling.

En hreinskilnin er virðingarverð. Það er sannarlega ekki auðvelt að hefja kosningabaráttu með þennan boðskap. Þegar verðbólgan hækkar, langtímavextir hækka og Seðlabankinn getur ekki tryggt ríkissjóði lánsfé í innlendri mynt verða menn að horfast í augu við raunveruleikann.

Ef við hefðum frjálslynda ríkisstjórn væri þegar búið að óska eftir viðræðum við Evrópusambandið um gjaldmiðlasamstarf til þess að tryggja stöðugleika krónunnar og frjáls viðskipti. Slíkt samstarf er forsenda þess að ferðaþjónustan fái eðlilegt starfsumhverfi og þekkingariðnaður geti orðið sterkari stoð í verðmætasköpuninni.

Viðreisn atvinnulífsins næsta áratug kallar á frjálslynda hugmyndafræði en ekki höft.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. mars 2021