Afkomubót: Nýtt nafn á gömlum púka

Þorsteinn Pálsson

Afkomubót merkir: Hækkun skatta og niðurskurð. Í raun er hún því nýtt ljóðrænt heiti á gömlum ríkisfjármálapúka.

Stjórnarflokkarnir segja að púkinn þurfi 35 til 50 milljarða króna að því gefnu að verðbólga hjaðni, vextir hækki ekki og krónan haldist stöðug.

Efnahagspólitík næstu tveggja kjörtímabila mun snúast um að hemja þennan púka og með hvaða ráðum það má gera.

Viðurkenna gagnrýni

Fyrr á þessu ári settu Samtök atvinnulífsins fram mjög harða gagnrýni á forsendur efnahagsstefnunnar.

Þau bentu réttilega á að vextir af skuldum ríkissjóðs þurfa að vera lægri en hagvöxtur til þess að skuldasöfnunin leiði ekki til skattahækkana eða niðurskurðar á velferðarkerfinu.

Jafnframt töldu þau að ekkert benti til þess að þetta markmið náist.

Stjórnarflokkarnir viðurkenna nú formlega þessa gagnrýni með nýja nafninu á púka fjárlaganna.

Klípa kjósenda er aftur á móti sú að til þess að viðhalda pólitískum stöðugleika vill ríkisstjórnin ekki ræða púkann fyrir kosningar. En það gera aðrir:

Vextir hækka

Í Markaði Fréttablaðsins í lok mars bendir Agnar Tómas Möller sviðsstjóri hjá Kviku eignastýringu á að um síðustu áramót hafi vaxtabyrði opinberra aðila á Íslandi verið sú þriðja hæsta í OECD. Aðvörunarorð hans eru þessi:

„Hröð hækkun stýrivaxta vegna ofhitnunar af völdum ríkisfjármála og enn frekari hækkun langtímavaxta vegna lækkunar lánshæfis, gæti því leitt til tug milljarða aukningar í árlegum vaxtakostnaði ríkissjóðs.“

Væntanlega mun Seðlabankinn þó reyna að halda eigin vöxtum í horfinu fram yfir kosningar.

En sú aðvörun, sem hér er vitnað til, sýnir að nýrra aðgerða er þörf, ef koma á í veg fyrir að púkinn í fjármálaáætluninni tvöfaldi þyngd sína.

Hamskipti kjarnaverðbólgu

Í Markaði Fréttablaðsins í síðustu viku segir Birgir Haraldsson sviðstjóri hjá Akta sjóðum að hamskipti kjarnaverðbólgu sé eftirtektarverð þróun, en um leið áhyggjuefni. Síðan segir hann:

„Verðbólguvandinn verður vart leystur með krónunni og ekki er víst að núverandi efnahagsslaki nægi til að ná fram hjöðnun á verðbólgu með vorinu líkt og Seðlabankinn bindur vonir við.“

Birgir telur að þáttaskil geti verið fram undan og segir: „Það er því ekki útilokað að væntingar um vaxtahækkanir Seðlabankans taki miklum breytingum á næstu misserum, ekki síst ef verðbólgusviðsmyndin súrnar vegna versnandi verðbólguvæntinga heimila og fyrirtækja.“

Í nýrri Vísbendingu kemur fram að Hagfræðistofnun gerir ráð fyrir að verðbólga lækki síðar á þessu ári en hækki svo skarpt í byrjun næsta árs.

Erlendir fjárfestar flýja

Vefmiðillinn Kjarninn vakti athygli á því í síðustu viku að fjármagnsflótti erlendra fjárfesta frá Íslandi er skollinn á. Erlendir fjárfestar fóru þannig með 115 milljarða króna út úr íslenska hagkerfinu umfram það sem þeir komu með inn síðustu fimmtán mánuði.

Erlendir fjárfestar yfirgefa skuldabréfamarkaðinn þegar vextir lækka. En nú flýja þeir hlutabréfamarkaðinn líka. Ástæðan er sú að erlendu fjárfestarnir hafa ekki trú á gjaldmiðlinum og efnahagsstefnunni. Þeir ætla ekki að tapa á hugsanlegri gengislækkun.

Ríkissjóður hefur á sama tíma tekið jafn mikil erlend lán. Það þýðir að ríkisstjórnin flytur gengisáhættuna, sem erlendir fjárfestar losa sig við, yfir á almenning.

Höft og lífeyrisskerðingar

Til að hemja vöxt púkans þarf ríkisstjórnin eðlilega að grípa til aðgerða. Hún verður að auðvelda Seðlabankanum að halda gengi krónunnar uppi og lækka langtíma vexti, sem ekki hefur enn tekist.

Þetta gerir ríkisstjórnin annars vegar með frumvarpi, sem færir Seðlabankanum ótakmarkað vald til þess að setja jafn víðtæk fjármagnshöft og eftir hrun. Hins vegar með frumvarpi um skerðingu á lífeyrisgreiðslum lífeyrissjóða með tæknilegum breytingum, sem trúlega er bara fyrsta skref á þeirri vegferð.

Ríkisstjórn, sem er bundin við krónuna, hefur ekki önnur verkfæri en gjaldeyrishöft og skerðingar á lífeyrisskuldbindingum lífeyrissjóða til að halda genginu stöðugu og lækka vexti, í von um að hindra þannig púka ríkisfjármálanna í að fitna.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. apríl 2021