Borgarhljóð

Þegar ég gekk um Lækjargötu um daginn tók ég eftir því að einu hljóðin sem heyrðust komu frá háværum bílvélum og suðandi nagladekkjum. Svo kom flugvél inn til lendingar með tilheyrandi vélarhljóði og þyt. Þetta eru sem sagt borgarhljóðin í dag.

Hér áður fyrr heyrðist hófadynur í Lækjargötunni. Þar voru hneggjandi hestar, skröltandi hestvagnar, blaðasalar sem öskruðu „Vísir nýjustu fréttir“ og hróp og köll barna að leik í miðborg Reykjavíkjur. En hvernig verða borgarhljóðin í framtíðinni? Verður borgin ef til vill hljóð?

Sala á rafbílum eykst um allan heim. Talið er að innan tíu ára verði nær eingöngu seldir hljóðlausir rafbílar. Munu borgarhljóð framtíðarinnar vera suð frá rafbílum og hljóðlausum rafskutlum þannig að aftur fari að heyrast í fólki að tala saman og börnum að leik? Um allan heim eru hljóðtæknimenn að hanna hljóð fyrir rafbílana en hljóðlausir bílar geta verið hættulegir gangandi vegfarendum. Einnig er talið mikilvægt fyrir ökumenn slíkra bíla að fá tilfinningu fyrir hraðanum með hækkandi hljómi.

Komið hafa fram hugmyndir að splunkunýjum hljóðum fyrir rafbíla. Þeir þurfa nefnilega ekki endilega að hljóma eins og gömlu bílvélarnar. Í því sambandi er nefnt að hljóð risaeðlanna í Jurassic Park-bíómyndunum er tilbúið enda hefur enginn heyrt í þessum skepnum. Sem dæmi um nýjar hugmyndir að rafbílahljóðum má nefna að þegar nýjasti rafbíllinn er gangsettur heyrist fyrst hljóð í sinfóníuhljómsveit sem er að stilla hljóðfærin fyrir tónleika.

Rafbílar gætu hugsanlega gefið frá sér söng hrossagauks, hlátrasköll eða fossanið. Einnig gætu þeir gefið frá sér hófadyn eða hróp og köll krakka að leik á sumardeginum fyrsta! Ég hlakka mikið til að heyra borgarhljóð framtíðarinnar. Gleðilegt sumar!

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. apríl 2021