05 apr Sundlaug óskast… í Reykjavík
Undarlegt erindi dúkkaði nýverið upp í bæjarráði Kópavogsbæjar sem varðaði beiðni um að bæjarstjóri Kópavogs og borgarstjóri Reykjavíkur skrifuðu undir viljayfirlýsingu um að efna til hönnunarsamkeppni vegna nýrrar sundlaugar í Fossvogsdal. Erindið, sem byggir á átta ára gömlu minnisblaði, virðist reyndar vera búið að sitja á borði bæjarstjóra í heilt ár og fyrirfinnst fyrirhuguð sundlaug ekki í neinum áætlunum í Kópavogi, hvorki til undirbúnings né framkvæmdar næstu fjögur árin og tilurð hennar hefur aldrei verið rædd í sameiginlegri fjárhagsáætlunarvinnu.
Hér er tilefni til að staldra við og fjalla um samstarf í bæjarstjórn Kópavogs og vinnubrögð. Ágætis traust hefur ríkt í samstarfinu hingað til. Á hverju ári hafa kjörnir fulltrúar og embættismenn unnið fjárhagsáætlun til næsta árs og næstu þriggja ára. Vinnan er umfangsmikil, ekki síst hjá starfsfólki bæjarins og tekur margar vikur enda eru þar öll helstu verkefni ákveðin í samstarfi allra flokka.
Síðasta áætlunarvinna var óvenjuleg og þá reyndi á samstöðu og traust því Kópavogsbær stendur frammi fyrir miklum fjárfestingum á næstu fimm árum. Ein þeirra er stærsta einstaka fjárfesting sem Kópavogsbær hefur ráðist í, bygging nýs Kársnesskóla. Á áætlun er líka uppbygging skíðasvæðanna, risastór samgöngupakki og gatnagerð í tengslum við Borgarlínuna. Fjárhagsleg óviss ríkir hjá Sorpu, Strætó og Slökkvilið Höfuðborgarsvæðisins og jafnframt erum við að stofna nýtt svið innan stjórnsýslunnar til þess að freista þess að bæta vinnubrögð við rekstur bæjarins. Fyrirséð er að Kópavogsbær skili rekstrarhalla upp á 600-1100 milljóna króna fyrir árið 2021. Rekstur bæjarins verður ósjálfbær næstu árin og þarf að taka lán til að standa við miklar fjárfestingar í langtímaáætlunum. Þannig lítur þetta a.m.k út núna. Það er vandséð hvar sundlaug Sjálfstæðismanna í Kópavogi og Samfylkingarinnar í Reykjavík passar inn í þau áform.
Þegar fjárhagsáætlunin síðasta var kynnt sendi bæjarstjóri frá sér fréttatilkynningu þar sem samstaða var sögð mikilvægari en nokkru sinni því heimsfaraldurinn hefur sett stórt strik í reikning bæjarsjóðs næstu þrjú árin. Allir flokkar í bæjarstjórn Kópavogs höfðu þá sýnt nákvæmlega þá samstöðu í sameiginlegri bókun sinni þegar fjárhagsáætlun var samþykkt í desember í þverpólitískri sátt, sjötta árið í röð. Allir voru tilbúnir til að axla sameiginlega ábyrgð á að draga ekki úr rekstri og verja þannig grunnþjónustu, auka við útgjöld í velferðarþjónustu og samþykkja sameiginlega stofnframkvæmdir fyrir árin 2021-2024.
Það skýtur því skökku við og veldur vonbrigðum að ráðandi meirihluti ákveði að leggja fram kostnaðarsama tillögu um að bæjarstjórn samþykki viljayfirlýsingu um að efna til hönnunar og skipulagssamkeppni á nýrri sundlaug í Fossvogsdalnum. Það skýtur ekki síður skökku við að meirihlutinn krefjist þess að hundsað sé þeirra eigið ákall um sameiginlega ábyrgð á fjármálum bæjarins og samstöðu allra flokka í bæjarstjórn. Hvað ætli hafi breyst?
Þörf Reykvíkinga fyrir sundlaug getur ekki gengið framar þeirri kröfu að mótaðar séu stefnur, þarfagreiningar unnar í samráði við íbúa, mælanleg markmið séu sett fram og fjármagni ráðstafað í takti við þau forgangsmarkmið sem skilgreind eru í þeirri vinnu. Kópavogsbúar eiga heldur ekki að taka við reikningum fyrir kosningaloforð úr Reykjavík vegna furðulegs undirlægjuháttar þeirra sem hér sitja við stjórnvölinn. Sundlaugar eru fínar. Það má ekki misskilja það. Gagnrýni mín snýr að gamaldags vinnubrögðum og loforði í viljayfirlýsingu sem erfitt verður að standa við næstu árin.
Undirrituð hafnaði erindinu og óskaði eftir því að tillögunni yrði vísað til gerðar fjárhagsáætlunar. Skemmst er frá því að segja að tillögunni var hafnað. Það verður fróðlegt að sjá hvaða grunnþarfir Kópavogsbúa munu víkja fyrir reykvískum kosningaloforðum.