Að hitta heila þjóð í hjartastað

Þorsteinn Pálsson

Seðlabankinn er musteri peninganna. Í gegnum tíðina hafa flestir borið virðingu fyrir bankanum og stjórnendum hans. En það væri ofsagt að bankinn hafi verið fólkinu í landinu hjartfólginn.

Seðlabankastjóri og formaður bankaráðs hafa nýlega með hófsömu orðalagi staðhæft að hagsmunahópar stýri að miklu leyti málefnum þjóðarbúsins. Viðbrögðin sýna að þeir hafa hitt þorra þjóðarinnar beint í hjartastað óháð afstöðu til stjórnmálaflokka.

Snuprur

Þetta óvenjulega útspil um svo eldfimt efni markar því nokkur þáttaskil.

Formaður Viðreisnar spurði forsætisráðherra á Alþingi hvort hún væri sammála Seðlabankastjóra. Forsætisráðherra snupraði bankastjórann með listrænni háttvísi. Hún sagði einfaldlega að hann hefði mátt skýra ummælin betur svo að skilja mætti við hvað væri átt.

Þetta álitaefni er bæði nýtt og gamalt.

En víst er að Seðlabankastjóri hefði tæplega blandað sér í umræðuna nema fyrir þá sök að honum finnst sem lýðræðislega kjörin stjórnvöld hafi ekki staðið í stykkinu og þar á meðal núverandi ríkisstjórn.

Meira ógegnsæi

Málið er þó ekki einfalt. Áhrif hagsmunaafla lúta ekki alltaf að sérhagsmunum.

Óumdeilt er til að mynda að það var í þágu almannahagsmuna þegar verkalýðshreyfingin og samtök atvinnurekenda gjörbreyttu efnahagsstefnu stjórnvalda með þjóðarsáttinni 1990.

Ein breyting skiptir hér máli. Áður fyrr voru kjörnir forystumenn í hagsmunasamtökum þeir sem raunverulega réðu för.

Á síðustu árum eru dæmi þess að skuggastjórnendur hafi orðið meiri áhrifavaldar. Það dregur úr gegnsæi og getur aukið baksviðsáhrif hagsmunaafla á kostnað lýðræðisins.

Sundruðu sátt

Trúlega er það ekki tilviljun að bæði Seðlabankastjóri og formaður bankaráðs nefna Samherja sem stökkpall inn í þessa umræðu.

Fyrirtækið hefur til dæmis í rúm tuttugu ár ráðið mestu um að þjóðarsátt, sem náðist í auðlindanefnd Jóhannesar Nordal, hefur ekki orðið að veruleika. Málið er því enn heitasta kartaflan í potti íslenskra stjórnmála.

Sáttin gekk út á að þjóðareign með tímabundnum nýtingarrétti yrði skilgreind í stjórnarskrá. Tillagan gerði einnig ráð fyrir að í stað tímabindingar gæti komið fimm ára uppsagnarfrestur.

Sáttin um þjóðareignarhugtakið byggðist sem sagt á tímabindingu eða tilteknum uppsagnarfresti, ella væri það nafnið tómt.

Lýðræðið víkur

Allir stjórnmálaflokkar og helstu hagsmunasamtök í sjávarútvegi sameinuðust um niðurstöðuna. Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra lýsti sáttinni sem „stóratburði í íslenskri samtímasögu“ og sagði: „En það væri til lítils að setja svona vinnu af stað ef menn ætluðu ekki að taka mark á henni.“

En svo fór að stuðningur Sjálfstæðisflokksins gufaði smám saman upp. Samt voru rök auðlindanefndar ekki hrakin og orð fyrrum forsætisráðherra ekki formlega afturkölluð. Þegar stjórnmálaflokkar kúvenda í prinsippmálum án röksemdafærslu er það ákveðin vísbending um skuggastjórnun hagsmunaafla.

Sex flokkar, sem allir fylgdu stefnu um tímabundinn nýtingarrétt, fengu í síðustu kosningum tvo þriðju hluta atkvæða. Sjálfstæðisflokkurinn með tæpan fjórðung atkvæða hefur hins vegar í krafti áhrifa sinna í ríkisstjórn komið í veg fyrir að nýtt stjórnarskrárákvæði um þjóðareign fengi raunverulegt inntak með því að tímabinda nýtingarréttinn.

Þetta er skýrt dæmi um það hvernig lýðræðið víkur fyrir hagsmunastjórn.

Dulin skilaboð

Seðlabankastjóri og formaður bankaráðs vísuðu í ofsa Samherja gegn undirmönnum í Seðlabankanum og fréttamanni ríkisútvarpsins. Vissulega urðu þeim á mistök. En því fer fjarri að þau gefi einu stærsta alþjóðlega sjávarútvegsfyrirtæki heims réttmæta ástæðu til svo mikils hamsleysis.

Samherji sýnist ekki fá mikið út úr því að ná sér niðri á þessum einstaklingum.

Líklegra er að fyrirtækið vilji gefa þeim sem starfa við embætti Héraðssaksóknara óbeina viðvörun. Embættið hefur rannsakað Namibíu-mál fyrirtækisins í langan tíma.

Það er í þessum duldu skilaboðum, sem mesta hættan af herferðinni er fólgin.

Hægagangurinn í rannsókninni bendir til þess að embættið hafi ekki nægjanlega fjármuni til að sinna svo umfangsmiklu verkefni á eðlilegum tíma. Framvinda rannsókna ákæruvalds og fjármálaeftirlits hefur verið miklu hraðari í Namibíu og Noregi.

Þessi dráttur getur svo endað með þverrandi trausti á réttarkerfinu, hvort sem grunsemdirnar eru á rökum reistar eða ekki.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. maí 2021