Afglæpavæðing hafta

Þorsteinn Pálsson

Afglæpavæðing fíkniefna er mikið til umræðu. Fyrir Alþingi liggur annað stjórnarfrumvarp, sem framselur ákvörðunarvald um gjaldeyrishöft til Seðlabankans. Segja má að það feli í sér eins konar afglæpavæðingu gjaldeyrishafta.

Báknið fær meiri völd

Í bókinni Áhættudreifing eða einangrun frá 2014 segja Ásgeir Jónsson núverandi Seðlabankastjóri og Hersir Sigurgeirsson ráðgjafi hans að þeirri skoðun hafi vaxið fylgi innan hagfræðistéttarinnar að „sjálfstæð peningamálastefna sé í raun ómöguleg fyrir smærri myntsvæði nema því aðeins að hún sé studd með höftum.“

Gjaldeyrishaftafrumvarp ríkisstjórnarinnar byggir því á faglegum og raunsæjum forsendum. En það breytir ekki hinu að með því er stigið risaskref í átt til aukins stjórnlyndis í íslenskum efnahagsmálum.

Stundum er orðið bákn notað um ríkisstofnanir. Í þeim skilningi er þetta stærsta skrefið í langan tíma til að blása út völd báknsins.

Ávinningur og fórnarkostnaður

Eftir hrun hefur Ísland fylgt Evrópuþróuninni og veitt Seðlabankanum heimild til að beita svokölluðum þjóðhagsvarúðarreglum. En hér er gengið miklu lengra og bankanum falið ótakmarkað umboð til að beita hvers kyns gjaldeyrishöftum.

Ávinningurinn verður vissulega stöðugri króna. Í raun verða gengissveiflurnar þó bara færðar yfir í haftasveiflur. Höftunum verður stundum beitt í ríkum mæli en í annan tíma í litlum skömmtum.

Vandinn er að haftasveiflurnar munu skapa verri viðskiptahindranir en gengissveiflurnar og virka sem enn áhrifaríkari fuglahræða á erlenda fjárfesta.

Fórnarkostnaðurinn er sá að það er ekki verið að auðvelda atvinnulífinu að hlaupa hraðar og ekki verið að plægja jarðveg fyrir nýsköpun og þekkingariðnað.

Síðbúin viðurkenning

Þegar vextir voru ákveðnir við ríkisstjórnarborðið var nær ógerlegt að beita þeim í hagstjórnartilgangi. Stjórnmálamenn, sem sæta kjöri á fjögurra ára fresti, freistast eðlilega til þess að láta skammtíma sjónarmið ráða fremur en langtíma.

Um leið og vaxtaákvarðanir voru afglæpavæddar og færðar í Seðlabankann og út á markaðinn breyttist þetta. Eins verður með höftin. Þau verða ekki lifandi stjórntæki nema í höndum Seðlabankans.

Frumvarp ríkisstjórnarinnar er síðbúin pólitísk viðurkenning á þeirri hagfræðikenningu, sem Seðlabankastjóri og ráðgjafi hans settu svo vel í íslenskt samhengi fyrir sjö árum.

Skila auðu

Viðbrögð Samtaka atvinnulífsins við þessari grundvallarbreytingu í átt til aukins stjórnlyndis eru umhugsunarefni.

Í umsögn benda þau vissulega á galla við ótakmarkaðar haftaheimildir en sneiða algjörlega hjá því sem mestu skiptir: Að ræða hagfræðilegu forsendurnar fyrir þessari ákvörðun og þá kosti sem við eigum til þess að komast hjá auknum viðskiptahindrunum. Þau skila því í raun auðu.

Hvers vegna? Tapar ekki allt atvinnulífið á auknum höftum? Málið er aðeins flóknara.

Gjaldeyrishaftakerfi virkar ekki nema með víðtækum undantekningum. Stærstu fyrirtækin njóta þeirra. Sum stærstu sjávarútvegsfyrirtækin hafa til dæmis nýtt hluta auðlindarentunnar til að kaupa upp iðnfyrirtæki, verslunarkeðjur, skipafélög og olíufélög.

Fyrirtækjablokkirnar munu njóta stærðarinnar og fá ívilnanir í haftakerfinu. Þær styrkja því stöðu sína gagnvart smáfyrirtækjum og nýsköpunarfyrirtækjum, sem höftin bitna á af fullum þunga.

Þetta sýnist vera baksviðið þegar Samtök atvinnulífsins geta hvorki rætt forsendur haftaheimilda né aðrar leiðir þótt eitt helsta prinsipp frjálsra viðskipta sé í húfi.

Ögrun við velferðarkerfið

Söfnunarkerfi lífeyrisréttinda verður að líkindum fyrsta fórnarlambið.

Höft munu smám saman brjóta það niður. Það þrífst ekki nema með miklu meiri erlendum fjárfestingum eins og seðlabankastjóri og ráðgjafi hans segja einnig í riti sínu.

Afglæpavæðing hafta er því einnig alvarleg ögrun við velferðarkerfið. Að auki mun hún veikja samkeppni og skerða hag neytenda.

Valið

Hitt er að stöðugt gengi og jafn frjáls milliríkjaviðskipti og grannlöndin njóta eru ekki ókeypis fremur en hádegisverðurinn. Verðið er sjálfstæð peningastefna.

Evra eða gjaldmiðilssamstarf við Evrópusambandið eins og Danir eru með eru hinir kostirnir. Klípan er: Það er ekki hægt að vera á móti höftunum nema vilja fara hina leiðina.

Samtök atvinnulífsins sitja hjá við þetta leiðaval. Með því taka þau í raun afglæpavæðingu hafta fram yfir frjáls viðskipti.

Frá sjónarhóli atvinnulífsins í heild og almannahagsmuna er hinn kosturinn þó augljóslega betri.

Greinin birtisti fyrst í Fréttablaðinu 20. maí 2021