Sá, sem samþykkir þetta, er samherji í raun

Benedikt Jóhannesson

Þegar ég var í menntaskóla lásum við stuttar sögur á þýsku. Ein hét Nur ein Komma, eða Aðeins ein komma. Hún var á þessa leið: Kennari sat einn í lestarklefa og sá að það hafði verið skrifað á vegginn: Wer dies liest ist ein Esel. [Sá, sem les þetta er asni]. Kennaranum leið hroðalega að sjá krotið, ekki vegna grínsins, heldur vantaði kommu á réttum stað. Eftir langa mæðu og sálarþrautir tók hann upp blýant og bætti við kommu: Wer dies liest, ist ein Esel. [Sá, sem les þetta, er asni]. Í því kom lestarvörðurinn inn og nappaði kennarann fyrir veggjakrot. Smáleiðrétting breytti öllu.

Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér þegar ég sá tillögur forsætisráðherra að auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir: „Ríkisstjórnin vill halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar og nýta meðal annars til þess aðferðir almenningssamráðs. Nefnd um málið mun hefja störf í upphafi nýs þings og leggur ríkisstjórnin áherslu á að samstaða náist um feril vinnunnar.“

Þetta hljómaði vel. Katrín Jakobsdóttir nýtur trausts þjóðarinnar sem snjall og sanngjarn foringi, sem má treysta. Formenn stjórnmálaflokkanna komu saman að vinnunni og markmiðið var að leggja fram sameiginlega tillögu um nokkrar hluta stjórnarskrárinnar.

Frá upphafi var að því stefnt að breytingar yrðu settar fram „í sem breiðastri samstöðu.“ Það segir sína sögu að forsætisráðherra er nú eini flutningsmaður að tillögum um breytingar á nokkrum greinum stjórnarskrárinnar. Flestar eru skaðlausar og jafnvel til bóta, sýnist mér. Ein, auðlindaákvæðið, afleit. En henni má bjarga með einfaldri breytingu.

Ráðherrann virðist telja að með því að setja inn orðið þjóðareign í efnisgrein, sem annars segir ekki neitt, hafi hún uppfyllt væntingar þjóðarinnar um að arðinum af auðlindum verði skipt með sanngjörnum hætti. Síðasta greinin í auðlindaákvæði Katrínar er svona: „Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni.“ Rétt eins og nú. Með öðrum orðum: Formaður VG vill engu breyta.

Stjórnarskrá á að vera skýr um ótvíræð réttindi þjóðar og þegna. Svo vel vill til að hægt er að laga hugmyndir ráðherrans með einföldum hætti:

Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fullt gjald fyrir heimildir til nýtingar tímabundin afnot í ábataskyni.

Þannig er hægt að snúa grein, sem er nánast gjafabréf til útgerðarmanna um ævarandi afnot á spottprís, í staðfestingu á því að þjóðin á að njóta arðsins.

Samþykki Alþingi tillögu forsætisráðherra óbreytta munu útgerðarmenn hrósa sigri, en þjóðin sitja eftir með sárt ennið. Sætta kjósendur ríkisstjórnarflokkanna sig við það? Var það til þess sem VG vildi leiða ríkisstjórnina?

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. maí 2021