08 júl Athafnafrelsi og umhverfisvernd
Frelsi til athafna er eitt helsta einkenni frjálslyndra samfélaga. Hlutverk stjórnvalda er að skapa umgjörð þar sem frelsið nýtur sín til hagsbóta fyrir samfélagið í heild sinni. Eitt af stærstu viðfangsefnunum nú er að gera atvinnulífinu betur kleift að vera öflugur þátttakandi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
Hér á Íslandi búum við yfir einstöku tækifæri þar sem sífellt meiri eftirspurn er eftir afurðum sem unnar eru með hreinni orku í sátt við náttúruna. Verkefni stjórnvalda er að ýta undir græna hvata og tryggja aðstæður sem auðvelda fyrirtækjum að taka umhverfissjónarmið inn í framleiðslu og framboð á vörum og þjónustu. Besta leiðin til að draga úr mengun er að tryggja að þeir sem valda henni greiði kostnaðinn af henni.
Samhliða því að virkja atvinnulífið með grænum hvötum þarf að gæta þess að hagrænir og grænir hvatar leiði ekki til skattahækkana heldur tilfærslu á tekjustofnum með samsvarandi lækkun annarra gjalda. Þannig er hægt að ná sátt um loftslagsaðgerðir á breiðum grunni enda leiði þær ekki til aukinnar skattheimtu heldur feli þær í sér tilfærslu skatta- og gjaldabyrði í þágu umhverfis- og loftslagsmála.
Fyrirtæki sem draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum eiga þannig, rétt eins og heimili, að fá umbun í samræmi við ávinninginn. Það á að vera dýrt að menga.
Ný og krefjandi úrlausnarefni kalla á nýjar lausnir. Þær lausnir eru mun líklegri til að verða til í samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs, þar sem nýsköpun og vöruþróun eru vænlegri til árangurs en eingöngu boð og bönn. Kraftar einkaframtaksins í gegnum þátttöku atvinnulífsins eru, eins og svo oft, lykillinn að árangri okkar. Sú ríkisstjórn sem tekur við stjórnartaumunum næsta haust þarf að skilja þetta og hafa kraft og úthald til að skapa réttu umgjörðina.