23 júl Hann las ekki yfir sig
Við höfum öll heyrt sögur af metnaðarfullum námsmönnum sem sátu við lestur kvölds og morgna þar til að bækurnar gleyptu þá. Ungt fólk sem er sagt hafa orðið truflað á geði af of miklu námi. Talað er um að það hafi lært yfir sig eða lesið yfir sig.
Það er að sjálfsögðu engin stoð fyrir þessum sögum. Lærdómur gerir fólk ekki veikt á geði. Aftur á móti er sumt fólk útsett fyrir geðsjúkdómum og algengast að þeir komi í ljós frá táningsaldri og fram að þrítugu, sem er sá tími sem fólk er gjarnan í námi.
Rót vandans
Þegar fólk er útsett fyrir geðsjúkdómi kunna ytri áhrif, á borð við álag og streitu, að koma einkennum af stað. Lestur er ekki sjálfstæður áhættuþáttur. Aftur á móti kann skortur á aðgengilegri þjónustu að seinka greiningum og gera tilvikin fleiri og alvarlegri. Þar komum við að rót vandans, að geðheilbrigðisþjónusta verði að vera tiltæk fyrir fólk sem þarf á henni að halda þegar það þarf á henni að halda.
Ástand biðlista í geðheilbrigðiskerfinu er ólíðandi í dag. Sá vandi var meginstef í erindum á síðasta geðheilbrigðisþingi. Sérfræðingar eru meðvitaðir um vandann en geta ekki leyst hann, geta ekki veitt snemmtæka skilvirka þjónustu, án stuðnings stjórnvalda. Sálfræðiþjónusta er einnig aðgengilegri fólki á vinnumarkaði en í námi. Á námsárum, á áhættualdri, er fólk bæði tekjulægra en aðrir hópar og nýtur ekki niðurgreiðslu stéttarfélaga. Þess vegna er nauðsynlegt fyrir þennan hóp að sálfræðiþjónusta verði niðurgreidd af Sjúkratryggingum, líkt og Viðreisn lagði til og fékk samþykkt, en ríkisstjórnin hefur ekki fylgt eftir.
Undirliggjandi vandi
Nemandinn las því ekki yfir sig. Hann var með undirliggjandi geðsjúkdóm og á tímabili í lífinu þar sem þeir koma vanalega fram. Það hefði skipt hann sköpum að hafa greiðan aðgang að geðheilbrigðisþjónustu.