08 júl Íslenskir hagsmunir í húfi
Ísland á aðild að stærstum hluta Evrópusamstarfsins. Sú fjölþjóðasamvinna hefur þjónað íslenskum hagsmunum afar vel.
Um aðild Íslands að innri markaði Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn stóðu þó hatrammar deilur þegar sú ákvörðun var tekin. Þær gufuðu hins vegar upp um leið og samningurinn byrjaði að virka.
Andófið fær byr
En nú, meira en aldarfjórðungi síðar, eru háværar kröfur innan tveggja stjórnmálaflokka um að samningurinn verði tekinn til endurskoðunar.
Þetta er klár stefna Miðflokksins. En íhaldsarmur Sjálfstæðisflokksins talar fyrir sömu hugmyndum þó að flokkurinn í heild hafi ekki enn gert kröfuna að stefnumáli.
Þessi sjónarmið komu skýrt fram þegar þriðji orkupakkinn kom til umfjöllunar á Alþingi. Afgreiðslan tafðist í meira en ár. Ástæðan var ekki óróleiki í VG. Það voru sjálfstæðismenn, sem höfðu ekki fullt vald á málinu, hvorki í þingflokknum né í baklandinu.
Sjálfstæðismenn í suðvesturkjördæmi ákváðu nýlega að setja í baráttusæti á lista sínum í þessu sterkasta vígi flokksins einn helsta andófsmann EES-samningsins, sem auk þess var aðal hugmyndafræðingurinn í andstöðunni við þriðja orkupakkann.
Áður skipaði þetta sæti talsmaður frjálslyndra viðhorfa í flokknum.
Skýr skilaboð
Þetta eru skýr skilaboð um að á næsta kjörtímabili muni Sjálfstæðisflokkurinn leggja aukna áherslu á þetta andóf og færa sig nær Miðflokknum.
Vinni flokkurinn sætið má reikna með fleiri uppákomum við innleiðingu reglna á grundvelli EES-samningsins.
Verði báðir flokkarnir í næstu ríkisstjórn er eins líklegt að endurskoðun samningsins um Evrópska efnahagssvæðið verði hafin.
Galdurinn
Sá mikli efnahagslegi árangur, sem innri markaður Evrópusambandsins hefur skilað, byggir á því að aðildarþjóðirnar hafa sammælst um að fylgja allar sömu leikreglum á tilteknum sviðum. Nefna má samkeppnisreglur, neytendavernd og kröfur um heilbrigði og hollustu.
Þetta hefur sérstaklega styrkt samkeppnisstöðu minni ríkja eins og Íslands. Af sömu ástæðu hefur þetta verið aflvaki fyrir minni og meðalstór fyrirtæki hér og um alla álfuna. Galdurinn er að allir fylgi sömu leikreglum.
Þau ríki, sem eiga fulla aðild að Evrópusambandinu, setja reglurnar. Hér hefur þjóðin ekki einu sinni fengið að segja álit sitt á því hvort rétt sé að tryggja Íslandi sæti við borðið þegar ákvarðanir eru teknar.
Loðinmæltir talsmenn
Einhverra hluta vegna hafa talsmenn endurskoðunar EES-samningsins verið fremur loðinmæltir um markmiðið. Kjarninn í máli þeirra virðist þó vera sá að Ísland eigi að halda öllum réttindum á innri markaðnum en fá frjálsar hendur til þess að velja hvaða sameiginlegu reglum það vill fylgja.
Augljóst er að þessi hugmyndafræði gengur ekki upp. Í raun og veru er því verið að tala í kringum þá hugsun að Ísland fari út af innri markaðnum.
Kosningabarátta sjálfstæðismanna í suðvesturkjördæmi snýst um að tryggja þessu viðhorfi aukin áhrif á Alþingi.
Viðspyrnan
Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að ný skref í fjölþjóðlegri samvinnu og þátttaka í sameiginlegum leikreglum hefur alltaf verið viðspyrnan þegar Ísland hefur unnið sig út úr efnahagslægðum.
Nefna má aðildina að Norræna myntsambandinu, aðildina að Bretton Woods gjaldmiðlasamstarfinu á viðreisnarárunum, aðildina að Fríverslunarsamtökum Evrópu, aðildina að innri markaði Evrópusambandsins og samstarfssamninginn við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eftir hrun.
Viðspyrnan eftir kreppuna núna byggir á því að íslensk fyrirtæki fái ný tækifæri á erlendum mörkuðum. Jafnframt þarf að tryggja gengisstöðugleika.
Tvær leiðir
Þessu má ná skjótt með aukinni samvinnu innan marka EES-samningsins og til lengri tíma litið með fullri aðild að Evrópusambandinu. Sjálfstæðisflokkurinn boðar hins vegar: aukin gjaldeyrishöft til að styðja krónuna, engin fleiri skref í fjölþjóðasamvinnu og aukið andóf gegn EES.
Þjóðverjar ganga til kosninga á sama tíma og við í haust. Nýr leiðtogi Kristilegra demókrata þar segir að eina leiðin til þess að vaxa út úr kreppunni sé aukin Evrópusamvinna og aukin alþjóðleg samvinna.
Hér situr ríkisstjórn, sem heldur því fram að Ísland eigi nú í fyrsta skipti að vinna sig út úr kreppu án þess að stíga ný skref í fjölþjóðasamvinnu.
Hér eru íslenskir hagsmunir í húfi.