Raddir skynseminnar þagna

Benedikt Jóhannesson

Einu sinni lásu nánast allir unnendur frelsis, vestræns samstarfs og frjálsra viðskipta Morgunblaðið sér til gagns og ánægju. Nú virðist blaðið vera farið að veikjast í trúnni á þessi ágætu gildi, sem er skaði, því einmitt þessi þrenning hefur orðið Íslendingum til mestrar gæfu undanfarna öld. Rifjum því upp fyrir lesendum hvað frjáls markaður er:

„Á frjálsum markaði ákvarðast verð af kaupendum og seljendum á opnum og gegnsæjum markaði. Lögmál framboðs og eftirspurnar gilda, án allrar íhlutunar stjórnvalda. Enginn nýtur forréttinda, leyndra upplýsinga, einokunar eða tilbúins skorts.“

Í lögum um stjórn fiskveiða segir: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.“ Allt sanngjarnt fólk skilur þetta svo að þjóðin megi ráðstafa þessari sameign og arðurinn eigi að nýtast almenningi. Þó verður að hafa þann fyrirvara á að við sem nú lifum og hrærumst á Íslandi verðum að skila þessari eign jafngóðri eða betri til komandi kynslóða.

Þegar úthlutað er takmörkuðum gæðum býður það spillingu heim. Pólitíkusar ívilna útgerðarmönnum sem kveinka sér undan háum gjöldum til samfélagsins í formi auðlindagjalds.

Þegar rætt er um sanngjarna greiðslu fyrir auðlindina vilja flestir stjórnmálamenn styðja lítilmagnana í útgerðinni sem græða ekki nema tæpan milljarð á viku hverri. Hluti af hagnaðinum er af kvóta sem útgerðarmenn leigja frá sér á margföldu því sýndarverði sem þeir greiða í formi auðlindagjalds.

Markmiðið heiðarlegs fólks er að þjóðin fái sanngjarnt gjald fyrir auðlindina. Vinir útgerðarmanna heimta að stjórnmálamenn ákveði afgjaldið. Fræðimenn deila um það sem þeir kalla auðlindarentu sem er illreiknanlegt hugtak. Enda þarf ekkert að reikna það ef markaðurinn ræður.

Þeir sem aðhyllast frjálsa samkeppni vilja að framboð og eftirspurn ákveði auðlindagjöld. Hversu hátt verður markaðsgjaldið, spyrja sumir? Það er samt ekki aðalatriðið heldur sanngirnin. Frjáls samkeppni mun ráða niðurstöðunni.

Forsjárhyggjuflokkur eins og VG er auðvitað tortrygginn í garð frjáls markaðar. Sumir urðu samt hissa á því að flokkurinn hafði forystu um að lækka auðlindagjaldið, en líklega kemur kjósendum flokksins fátt á óvart eftir kjörtímabilið. Sjálfstæðisflokkurinn, sem áður var brjóstvörn frjáls markaðar og víðsýni í landinu hefur aftur á móti kúvent í þágu hagsmuna hinna fáu. Örfáir flokksmenn hafa bent á þetta óréttlæti, en þær raddir þagna óðum. Nefna má Vilhjálm Bjarnason, sem áður var samviska þingflokksins, og Gunnar Birgisson, sem lést nú í vor.

Kvótakerfið er ágæt leið til þess að úthluta takmörkuðum gæðum, en auðlindagjaldið hefur verið málamyndagjald og Alþingi til hneisu. Þjóðin á skilið breytingar og hún á skilið stjórnmálamenn sem þora að standa með henni.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. júlí 2021