Að draga annað augað í pung

Þorsteinn Pálsson

Í aðdraganda kosninga 1978 var gripið til harkalegra efnahagsráðstafana vegna versnandi samkeppnisstöðu atvinnulífsins. Þær skertu umsaminn kaupmátt.

Þeir tveir f lokkar, sem lofuðu óskertum lífskjörum þrátt fyrir breyttar aðstæður, unnu stórsigur í kosningunum. Næstu fimm ár freistuðu þrjár ríkisstjórnir þess, með aðild ráðherra úr öllum flokkum, að efna fyrirheit sigurvegaranna.

Það endaði með því að verðbólgan fór yfir 100 prósent.

Vatnaskil

Ég er ekki frá því að þessir atburðir hafi markað vatnaskil í pólitískri umræðu. Eftir þá þorðu menn síður að segja allan sannleikann um stöðu efnahagsmála. Mín kynslóð í pólitík ber þar heilmikla ábyrgð.

Smám saman fóru menn að ræða um þjóðarbúskapinn í sömu upphafningu eins og næsta landsleik í knattspyrnu. Allir vita að það stappar næst landráðum að ræða veikleika landsliðsins í samanburði við helstu keppinautana.

Í pólitíkinni náði þessi umræðuhefð hámarki á árunum fyrir miklahrun krónunnar 2008. Þessi tilhneiging til að draga annað augað í pung er enn ráðandi, þótt kreppan sé ekki jafn djúp nú og þá.

Samtök atvinnulífsins hafa reynt að vera með bæði augun opin í þeirri kosningaumræðu, sem nú stendur. Þau beina spjótum sínum einkum að fjármálastjórn heilbrigðiskerfisins og óstöðugleika í hagkerfinu.

Kápa úr klæðinu?

Í þrennum undangengnum kosningum hafa fjármál og skipulag heilbrigðisþjónustunnar verið á meðal heitustu kosningamála. Þau hafa því verið samfellt á dagskrá en vandi kerfisins þó haldið áfram að dýpka.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið að þremur stjórnarsáttmálum undanfarin átta ár, án þess að gera tilraun til að semja um umbætur á þessu sviði. Átta sinnum hefur hann sleppt því í samningum um fjárlög og átta sinnum í samningum um fjármálaáætlun.

Á þessu kjörtímabili lét hann svo ákvörðun um heilbrigðisstefnu til 2030 einnig fram hjá sér fara við ríkisstjórnarborðið.

Þunginn í málflutningi Samtaka atvinnulífsins fyrir þessar kosningar fer í að vara við framhaldi á þessu sinnuleysi.

Svona beitt gagnrýni vekur óhjákvæmilega þessa spurningu: Er líklegt að þeim, sem setið hafa með hendur í skauti við ríkisstjórnarborðið í þrjú kjörtímabil, verði kápa úr klæðinu á því næsta?

Norrænn samanburður

Forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins skrifaði í byrjun þessa mánaðar grein, sem birt er á vef samtakanna. Þar fær fjármálaráðherra ádrepu fyrir að leiða launaþróunina í landinu, sem samtökin telja að almenni vinnumarkaðurinn eigi að stýra eins og annars staðar.

Þá fær fjármálaráðherra á baukinn fyrir að hafa samið um að stytta vinnuvikuna samhliða launahækkunum og í miklum efnahagssamdrætti.

Síðan ber forstöðumaðurinn Ísland saman við önnur Norðurlönd. Þar kemur fram að frá aldamótum hafi laun hækkað þrefalt meira hér en þar, verðbólga verið fjórfalt meiri og vextir fimmfalt
hærri.

Óstöðugleiki og hindranir

Núverandi ríkisstjórn var mynduð um stöðugleika. Í fyrstu málsgrein í kosningaskjali Samtaka atvinnulífsins segir hins vegar: „Efnahagslegur óstöðugleiki hamlar blómlegu atvinnulífi.“

Hér er spjótunum einkum beint að fjármálaráðherra. Segja má að spjót Samtaka atvinnulífsins séu í þessu efni jafnvel oddhvassari en sumra stjórnarandstöðuflokkanna.

Samtök atvinnulífsins segja að hindranir standi atvinnusköpun fyrir þrifum. Að frumkvæði fjármálaráðherra samþykkti Alþingi í vor sem leið að gefa Seðlabankanum stóraukin völd til að beita gjaldeyrishöftum.

Sú ákvörðun byggir á þeirri viðurkenndu hagfræðikenningu að stöðugleiki krónunnar sé ógerlegur án haftaheimilda. En það þýðir fleiri hindranir, sem Samtök atvinnulífsins segja svo að standi
atvinnusköpun fyrir þrifum.

Ekkert er ókeypis

Hádegisverðurinn er ekki ókeypis í þessu tilviki fremur en öðrum. Menn verða að velja og hafna.

Stöðugleiki með jöfnum samkeppnisskilyrðum við helstu viðskiptalöndin kallar á evru, eða stöðugleikasamstarf við Evrópusambandið eins og Danir eru með.

Val ríkisstjórnarinnar liggur fyrir. En þrátt fyrir opin augu og góða greiningu á þeim hættum, sem við blasa, er eins og Samtök atvinnulífsins vilji sitja á girðingunni þegar kemur að þessu vali um leiðir.

En einmitt þetta val mun ráða mestu um það hvort verðbólga verður áfram fjórfalt meiri hér en á öðrum Norðurlöndum og vextir fimmfalt hærri.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 26. ágúst 2021