Okkur vantar alvöru leiðtoga

Benedikt Jóhannesson

Ívor lést Poul Schlüter, sem lengst allra var forsætisráðherra í Danmörku eftir stríð. Þegar hann lést voru fréttaskýrendur í Danmörku sammála um að ákvörðunin um að festa dönsku krónuna við þýska markið myndi halda nafni hans lengst á lofti. Hann fórnaði sjálfstæðum gjaldmiðli fyrir stöðugleika. Árið 1990 voru kosningar í Danmörku og Íhaldsmenn notuðu plaggöt með mynd af Schlüter með yfirskriftinni: Hvem ellers? eða Hver annar?

Þetta gerðist ekki í einu vetfangi. Fastgengisstefnan var tekin upp árið 1982, en fyrstu árin þurfti ítrekað að fella gengi dönsku krónunnar gagnvart markinu. Ástæðan var að verðbólga var á þessum árum meiri í Danmörku en í Þýskalandi. Árið 1986, eftir fjögra ára aðlögun, var gengið svo fest, fyrst við markið og svo evruna frá 1999. Formlega er markmiðið að halda sveiflum innan +/-2,25% frá gengi evrunnar, en í raun eru frávikin smá titringur fremur en sveiflur.

Fáir draga í efa að stöðugleikann í dönsku efnahagslífi undanfarna áratugi megi þakka því að gengi gjaldmiðilsins er fast. Fólk getur treyst því að virði peninganna verði það sama eftir ár og það var í gær. Danir hafa reyndar hafnað því að taka upp evruna sem gjaldmiðil, þó að þeir noti hana í raun (með mynd af drottningunni). Þessi sérviska er ekki ókeypis. Í kreppunni árið 2008 þurftu Danir að hækka stýrivexti talsvert umfram evrulöndin sem olli dönskum fyrirtækjum nokkrum aukakostnaði. Markmiðið um stöðuga krónu hélst þó í Danmörku meðan sú norska og sænska veiktust og ræfillinn á Íslandi varð nánast verðlaus og ekki nýtilegur í viðskiptum milli landa.

Á sama tíma og danska krónan haggaðist ekki gagnvart evru má segja að krónan hafi hrunið. Í byrjun september 2008 var skráð gengi evrunnar um 120 krónur. Mánuði seinna ákváðu bankastjórar Seðlabankans að lána Kaupþingi gjaldeyrisvarasjóð landsmanna, degi áður er bankinn varð gjaldþrota. Í kjölfarið hrundi gengi krónunnar. Opinberlega fór evran í 190 krónur í höftum, en á frjálsum aflandsmarkaði í 300 krónur. Krónan missti 60% af verðgildi sínu, nánast á einni nóttu. En það þarf ekki að fara svona langt aftur í tímann til þess að sjá afrek krónunnar. Á sjö mánuðum í fyrra rýrnaði hún um tæplega 20% gagnvart evru.

Gengisbreytingar eru tilfærsla á verðmætum. Þeir ríku geta varið sig, ólíkt hinum. Hagfræðingar þegja flestir þunnu hljóði yfir þessari gengisóstjórn. Sjálfstæð skoðun gæti komið þeim í ónáð hjá þröngsýnum stjórnvöldum. Það er einfaldast að halda kjafti og vera sætir.

Íslendingar reyndu fastgengisstefnu fyrir aldarfjórðungi með góðum árangri. Verðbólga lækkaði og efnahagslífið var í jafnvægi í nokkur ár. En svo sprungu menn á limminu og gáfust upp á stöðugleikanum. Við áttum engan Schlüter. Og eigum ekki enn.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. ágúst 2021