26 ágú Þegar sumir eru jafnari en aðrir
Það er ákveðin meginregla í siðmenntuðu samfélagi að við höfum sömu réttindi og gegnum sömu skyldum, að fólki sé ekki mismunað t.d. á grundvelli búsetu. En hvers vegna er það þá þannig að sumir eru jafnari en aðrir þegar það kemur að því að kjósa til Alþingis, æðstu stofnunnar landsins.
Skipta Mosfellingar og nágrannar okkar í Kraganum minna máli en vinir okkar sem búa í landsbyggðarkjördæmunum?
Það virðist að minnsta kosti vera miðað við áhugaleysi ríkisstjórnarflokkanna til að rétta hlut okkar sem búum í fjölmennasta kjördæmi landsins. Svo mikill var munurinn á vægi atkvæða í síðustu kosningum að nærri því tvöfaldan fjölda atkvæða þurfti í okkar kjördæmi til að fá þingmann kjörinn á móti þingmanni í fámennasta kjördæminu, eða 5.350 atkvæði á móti 2.690 atkvæðum.
Viðreisn lagði fram tillögu á Alþingi í vor sem stuðla átti á réttlátara kosningakerfi. Allir þingmenn stjórnarflokkanna kusu gegn þeirri tillögu. Heyrst hefur frá stjórnarflokkunum í sumar að það hafi einfaldlega ekki gefist nægur tími í vor til þess að ræða þetta frumvarp og því hafi ekki verið hægt að samþykkja það.
Við biðjum virðulega stjórnarþingmenn að hætta að slá ryki í augu kjósenda. Það var einfaldlega enginn vilji til þess að breyta þessu – þar sem að þessi misskipting er stjórninni í hag. Í okkar bókum kallast það sérhagsmunir.
Jafnt vægi atkvæða er jafnréttismál. Stjórnmálaflokkar eiga að fá þingsæti í samræmi við þá kosningu sem þeir hljóta. Þeir þingmenn sem eru kjörnir á þing starfa þar fyrir alla þjóðina, ekki bara sitt kjördæmi. Þannig náum við fram sanngirni, jafnrétti og samstöðu. Í þannig samfélagi viljum við búa.