30 sep Nú þarf að ræða alvöru lífsins
Í kosningunum síðasta laugardag var tvennt með öðru móti en oftast áður.
Annað er að stærstu viðfangsefni næsta kjörtímabils voru ekki á dagskrá. Það eru spurningarnar: Hvernig á að styrkja samkeppnishæfni Íslands? Og hvernig á að leysa skuldastöðu ríkissjóðs?
Hitt er að kosningabarátta stjórnmálaflokkanna fór fram í skugga af kosningabaráttu helstu hagsmunasamtaka atvinnulífs og launafólks.
Hræðsla fremur en málefni
Árið 1956 gerðu Framsókn og Alþýðuflokkur með sér formlegt kosningabandalag. Nýta átti ranglátt kosningakerfi til þess að fá hreinan meirihluta út á minnihluta atkvæða og mynda vinstri stjórn án sósíalista. Það mistókst. Nafngiftin Hræðslubandalagið festist við þessa tilraun.
Þegar skammt var til kosninga nú var svo hátt flug á Sósíalistum að margir töldu hættu á að mynduð yrði vinstri stjórn með þeim og Pírötum.
Svo virðist sem kjósendur sjálfir hafi að þessu sinni myndað eins konar þegjandi hræðslubandalag og sveiflað atkvæðum yfir á Framsókn og Flokk fólksins til að koma í veg fyrir slys af þessu tagi. Framsókn hefur verið pólitískt hlutlaus stjórnarflokkur og Flokkur fólksins er hjartahlýr eins máls flokkur.
Af þessu má ráða að úrslit kosninganna hafi fremur ráðist af hræðslu en málefnum.
Hagsmunasamtök
Helstu samtök atvinnulífsins og launafólks tóku virkan þátt í kosningabaráttunni með umfangsmiklum auglýsingaherferðum og ráðstefnum af því tagi, sem stjórnmálaflokkarnir hafa ekki efni á þrátt fyrir ríkisstuðninginn.
Atvinnulífið teiknaði þá mynd að staða ríkissjóðs væri svo sterk og samkeppnisstaða atvinnulífsins svo góð að ekki þyrfti að ræða hvernig á þeim málum yrði tekið á næsta kjörtímabili. Athygli kjósenda var beint að heilbrigðiskerfinu. Nærtækast var að lesa þannig í boðskapinn að rétt væri að halda ríkisstjórninni en fórna heilbrigðisráðherranum.
Boðskapur Alþýðusambandsins var einfaldur: „Það er nóg til.“ Tilgangurinn hefur ugglaust verið sá að fá fólk til að styðja þá flokka, sem helst töluðu fyrir því að beita ríkisfjármálum í því skyni að auka jöfnuð.
En hitt gæti alveg hafa gerst að þorri fólks, sem við köllum oft millistétt, hafi einfaldlega skynjað boðskapinn á þann veg að sannarlega væri nóg til og kaupgeta góð. Því væri best að taka ekki áhættu með eigin hag og kjósa óbreytt ástand.
Lýðræðið
Engin leið er að meta hvaða áhrif kosningaherferð hagsmunasamtakanna hafði.
Rödd þeirra hefur vissulega gildi í lýðræðissamfélagi. En hitt er mikið álitamál hvort eðlilegt getur talist að hún yfirgnæfi stjórnmálaflokkana þegar kosið er til Alþingis.
Þessi þróun er umhugsunarefni. Lýðræðinu stendur hætta af því ef stjórnmálaflokkar til hægri og vinstri eru svo málefnalega veikir að þeir verða háðir kosningabaráttu hagsmunasamtaka.
Það sem ekki var rætt
Stjórnarflokkarnir skildu eftir 50 milljarða króna gat í ríkisfjármálaáætlun í vor. Þeir sögðu þá að kjósendur ættu að ákveða hvernig upp í það yrði stoppað. Nú hafa þeir sagt sitt. Nýr stjórnarsáttmáli hlýtur því að geyma svar við þessari spurningu.
Hagfræðiprófessor, sem sæti á í peningastefnunefnd, skrifaði í Vísbendingu daginn fyrir kjördag að nauðsynlegt væri að minnka halla ríkissjóðs. Ríkisstjórnarflokkarnir þurfa að svara hvort það verður gert. Ef ekki verður orðið við þessu ákalli þurfa þeir að skýra hvaða önnur ráð þeir hafa til að tryggja stöðugleika.
Prófessorinn boðaði einnig að hækka yrði vexti upp fyrir verðbólgustigið. Í nýjum stjórnarsáttmála þarf að vera hægt að lesa hvort það verður látið gerast. Eigi að ná því með lækkun verðbólgu þarf að svara hinu: Hvernig á að lækka hana án vaxtahækkana.
Í kosningamálflutningi hagsmunasamtakanna fólst tvennt: Annars vegar að halda ætti uppi kaupmætti með háu gengi krónunnar. Hins vegar að nýta ætti lágt gengi krónunnar til að bæta samkeppnisstöðuna.
Það er snúið að gera hvort tveggja í senn. Fæstir vildu ræða þetta val í kosningabaráttunni. Nú stendur upp á stjórnarflokkana að koma með svar í nýrri stefnuyfirlýsingu.
Það er sem sagt komið að því að ræða þá alvöru lífsins, sem óþarft þótti að ræða við kjósendur.