22 sep Stöndum við stóru orðin – líka fyrir barnafjölskyldurnar!
Þegar líður að kosningum keppast allir stjórnmálaflokkar við að heilla kjósendur. Loforðum er fleytt fram og þau eru nú eins mismunandi og þau eru mörg, en öll hafa þau þann tilgang að fanga hug kjósenda. Í huga mínum er hlutverk loforða tvíþættur. Annars vegar að kynna stefnu og áherslu flokkanna og hins vegar að gæta þess að lofa ekki upp í ermina á sér. Rétt eins og í lífinu sjálfu. Sum loforðin sem taka nú yfir auglýsingadálkana á samfélagsmiðlum hafa vakið athygli mína og þá hjá ákveðnum Stjórnmálaflokkum. Því þessi loforð endurspegla ekki beint þeirra vinnu á Alþingi. Ég furða mig á því að Sjálfstæðisflokkurinn vilji hækka fæðingarstyrk þegar hæstvirtur dómsmálaráðherra kaus gegn þeirri tillögu Viðreisnar í fyrra. Ég furða mig auk þess enn meira þegar ég sé félags- og barnamálaráðherra boða hækkun á þaki fæðingarorlofsgreiðslna, en hann tók þátt í að fella þá tillögu okkar í Viðreisn fyrir síðustu jól. Sama með tillöguna um fæðingarstyrkinn, líka felld af honum og ríkisstjórninni í heild sinni.
Þessar hugmyndir, þessi loforð, það er ekkert verið að finna upp hjólið. Það er löngu búið að ræða þessi mál í þaular og búið að leggja þetta á borð fyrir Alþingi. En tillögurnar voru felldar! Viðreisn hefur talað fyrir málefnum ungs barnafólks með því að til dæmis leggja fram þessar tvær tillögur. Önnur sem hljóðaði uppá að hækka þak fæðingarorlofsgreiðslna úr 600.000 krónum í 800.000 krónur og hin sem hljóðaði upp á að þak fæðingarstyrks yrði hækkaður úr 83.233 krónum í 124.850 krónur. En nei, ríkisstjórnin samþykkti ekki tillögurnar. Mér þykir það stórskrýtið að sömu manneskjur sem bjóða hér gull og græna skóga hafa fellt þá skóga niður örfáum mánuðum áður. Erum við virkilega komin á þann stað í þessum kosningaloforðum að við erum ekki samkvæm sjálfum okkur? Að við getum ekki gert betur? Er möguleikinn sá að þau felli niður tillögur gerðar af öðrum eingöngu til þess að koma með sínar eigin tillögur fram sem eru nákvæmlega eins en með smá „twisti“ til þess að líta betur út í augum þjóðarinnar? . Ég spyr af hverju? Er ástæðan kannski sú að þessi þingmál komu frá stjórnarminnihlutanum en ekki meirihlutanum. Fyrir mér er svarið mjög einfalt, það skiptir ekki máli hvaðan gott kemur, svo framarlega að það sé til hagsbóta fyrir samfélagið okkar.
Ég veit að ég er hvöss í orðum í garð ráðherranna tveggja en mér finnst ég ekki hafa annað val. Við viljum ekki að fólk segi bara eitthvað til að koma sér áfram, við þurfum fólk inná þing sem vinnur af heilindum. Ég geri mér grein fyrir að ráðherrarnir sem ég nefndi hér að ofan eru gríðarlega öflugir og flottir leiðtogar, sem hafa gert margt jákvætt fyrir samfélagið, það verður aldrei af þeim tekið. En ég bið þá vinsamlegast um að hugsa sig tvisvar um áður en markmiðin verða sett upp á stóra skjáinn.
„Gæti verið að ég hafi fellt þessa tillögu áður?“
Greinin birtist fyrst í Kópavogs- og Garðabæjarpóstinum 22. september 2021