Það eru tækifæri í heilbrigðisþjónustu

Í gegnum tíðina höfum við átt býsna gott heilbrigðiskerfi. Kerfi sem byggist á norrænni hugmyndafræði, þar sem jafnt aðgengi og þjónusta er leiðarstefið. Breið samstaða hefur ríkt í íslenskum stjórnmálum um að heilbrigðisþjónusta skuli vera fólki aðgengileg óháð efnahag þess. Á vettvangi stjórnmálanna hefur hins vegar verið tekist á um hvort ríkisrekið kerfi megi eitt veita alla heilbrigðisþjónustuna eða hvort fólk eigi líka að hafa aðgang að sjálfstætt starfandi fagaðilum. Þar liggja hina pólitísku átakalínur í dag, en ekki um það hvort heilbrigðisþjónusta eigi að vera greidd af hinu opinbera.

Eftirsóttustu starfskraftar heims

Starfsfólk í heilbrigðiskerfinu er í dag eftirsóttustu starfskraftar heims. Í þannig samkeppnisumhverfi ætti metnaður stjórnvalda auðvitað að vera að laða starfsfólk til sín. Forsætisráðherra hefur talað um að í hennar huga sé mönnunarvandi einn helsti vandi heilbrigðiskerfisins. Engu að síður hefur ríkisstjórn hennar unnið eftir aðferðafræði sem fækkar tækifærum í heilbrigðisþjónustunni. Þetta kjörtímabil hefur verið þrengt að sjálfstætt starfandi sérfræðingum í heilbrigðisþjónustu svo sem hjá læknum, sjúkraþjálfurum, talmeinafræðingum. Afleiðingin er að hægar gengur með nýliðun og biðlistar lengjast og lengjast. Þessir biðlistar hafa ekki síst bitnað á börnum og á fólki á landsbyggðunum. Við þekkjum sömuleiðis þá framkvæmd að bjóða sjúklingum, aðstandendum þeirra og skattgreiðendum upp á að sjúklingar séu sendir í liðskiptaaðgerðir til Svíþjóðar fyrir næstum þrisvar sinnum hærri kostnað en ef fólk gæti notið þessarar þjónustu hér heima. Þessi leið er farin enda þótt þægilegri og ódýrari kostur bjóðist hér heima og enda þótt hér séu starfandi sérfræðingar sem vel geta sinnt þessum verkefnum. Allt þetta kjörtímabil hafa ríkisstjórnarflokkarnir þrír gengið hönd í hönd um framkvæmd þessarar stefnu. Formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra hefur í kosningabaráttunni talað með þeim hætti að það er eins og hann hafi gleymt því eftir hvaða stefnu hefur verið unnið og gleymt því að flokkur hans hefur í fjögur ár stutt þessar kreddur. Hið sama á við um Framsóknarflokkinn.

Staðan á Landspítalanum

Staðan á Landspítala hefur orðið þess valdandi að bólusett þjóð býr við takmarkanir á daglegu lífi og athafnfrelsi. Til að tryggja að spítalinn ráði við að sinna öllum þeim verkefnum sem honum ber að sinna. Auka þarf fjármagn til Landspítalans svo hann standi undir þeim kröfum sem gera á til aðalsjúkrahúss þjóðarinnar. Ótækt er að takmarkanir á daglegu lífi borgara landsins séu þyngri en þörf er á vegna þess að spítalinn hefur ekki nauðsynlegar bjargir. Á sama tíma eru ríkisskuldir vegna heimsfaraldurs og sóttvarnaaðgerða nú yfir 1000 milljarðar. Það er samfélaginu gríðarlega kostnaðarsöm staða.

Þjónustan er það sem máli skiptir

Íslenskt heilbrigðiskerfi á að vera fyrir notendur þess. Það er jafnréttismál að aðgengi fólks að þeirri þjónustu sé jafnt óháð efnahag. Fjármagn til heilbrigðismála þarf að byggja á greiningu á þörf og kostnaðarmati, þannig að fjármunum hins opinbera sé varið skynsamlega. Formenn ríkisstjórnarflokkanna hafa lýst yfir að þeir vilji áframhaldandi samstarf að loknum kosningum. Miklu skiptir þess vegna að fólk geri sér þá grein fyrir því að atkvæði greitt flokkunum þremur felur í sér áframhaldandi stefnu í heilbrigðismálum sem þjónar kreddum fremur en fólki. Stefnu sem horfir fram hjá þörfum þeirra sem nota þjónustuna. Verkefnið fram undan er að nýta tækifærin í heilbrigðiskerfinu. Það er í þágu notenda og starfsfólks. Og það er í þágu almannahagsmuna. Fyrir þessum sjónarmiðum mun Viðreisn áfram berjast.

Höfundur er oddviti Viðreisnar í Reykjavík norður.

Greinin birtist fyrst á Vísi 8. september 2021