24 sep Þurfa höfuðstöðvar RARIK að vera í Reykjavík?
Stefna margra ríkisstjórna undafarin ár hefur verið að flytja opinber störf út á landsbyggðirnar. Framkvæmd og eftirfylgd þessarar stefnu hefur verið útfærð með ýmsum hætti og oft og tíðum með töluverðum fyrirgangi. Skemmst er að minnast flutnings Fiskistofu til Akureyrar þar sem starfsfólki fannst að sér vegið og þótti undirbúningur og framkvæmd ekki til eftirbreytni. Margir þekkja einnig flutnings Landmælinga á Akranes sem er jafnframt þekkt dæmi um miður vandaðan undirbúning við flutning opinberra starfa á landsbyggðirnar.
Það vekur furðu að ríkisvaldið skuli ekki geta staðið betur að þessum flutningum þegar fræðimenn hafa skrifað lærðar greinar og bækur um breytingastjórnun og öllum sem vilja vinna faglega að flutningi stofnana ætti að vera ljós sú aðferðafræði sem eykur líkur á farsælum breytingum í sátt við fólk og umhverfi. Það er reyndar umhugsunarefni að flest ný opinber störf skuli verða til á höfuðborgarsvæðinu og þau svo jafnvel síðar flutt út á land með slíkum vandræðagangi. Stefnan ætti fyrst og fremst að fylgja þörfinni og vera sú að efla þau störf sem fyrir eru á landsbyggðunum og að sjá til þess að þar verði meirihluti nýrra starfa til.
Staðreyndin er sú að opinberum störfum hefur fjölgað verulega síðustu ár og einna helst á höfuðborgarsvæðinu. Til að bæta gráu ofan á svart hafa ráðherrar flutt störf af landsbyggðunum til Reykjavíkur eins og dómsmálaráðherra núverandi ríkisstjórnar gerði með því að leggja niður fangelsið á Akureyri og flytja þau störf suður á Hólmsheiði. Allt með stuðningi stjórnarflokkanna.
Áhugaverðast er þó að horfa til landsbyggðastarfsemi eins og RARIK sem hefur sínar höfuðstöðvar í Reykjavík með fjölda starfsmanna þrátt fyrir að öll þjónusta fyrirtækisins sé á landsbyggðunum. Í mörg ár hefur verið rætt um að flytja höfuðstöðvarnar út á land. Nú er kominn tími til að láta af því verða og flytja þær til Akureyrar og Egilsstaða. RARIK er sannarlega fyrirtæki landsbyggðanna og þar eiga höfuðstöðvarnar að vera. Komist ég á Alþingi mun ég beita mér fyrir því að af þeim flutningum verði. Ég mun jafnframt beita mér fyrir því að stefnu um eflingu og flutning opinberra starfa á landsbyggðirnar verði framfylgt á vandaðan og faglegan hátt.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. september 2021