11 okt Ný stjórn Uppreisnar
Birt 11 okt 2021
í
Fréttir
af Viðreisn
Uppreisn hélt sjötta aðalfund sinn síðastliðinn laugardag, þar sem ný stjórn var kjörin. Í nýrri stjórn sitja, Katrín Sigríður Júlíu Steingrímsdóttir forseti, Ingvar Þóroddsson varaforseti, Stefanía Reynisdóttir alþjóðafulltrúi, Reynir Hans Reynisson gjaldkeri, Alexander Aron Guðjónsson viðburðarstjórnandi, Natan Kolbeinsson ritari og Ingunn Rós Kristjánsdóttir kynningarfulltrúi.
“Ég er stolt að segja frá því að ég hlaut kjör og traust samferðamanna minna í pólitík og er nýkjörin forseti ungliðahreyfingarinnar,” segir nýr formaður Uppreisnar, Katrín Sigríður Júlíu Steingrímsdóttir. “Í nýrri stjórn er frábært fólk sem ég get ekki beðið eftir því að vinna með og læra af. Sum eru reynsluboltar á sínu sviði á meðan önnur eru hér að stíga fersk inn eftir að hafa gengið til liðs við flokkinn í nýafstaðinni kosningabaráttu.”
“Það mun vera krefjandi og skemmtilegt að leiða ungliðahreyfingu sem talar fyrir frjálslyndi, mannréttindum og alþjóðasamstarfi þegar nýtt þing kemur saman sem einkennist því miður af íhaldsröddum sem engu vilja breyta. Við treystum því að þingflokkur Viðreisnar standi vaktina en við megum ekki vera þeim klappstýrur heldur aðhald og hvatning til góðra verka.
Að gefnu tilefni langar mig að nefna tvær skemmtilegar staðreyndir um þessa stjórn: í fyrsta sinn er forseti Uppreisnar ekki karlmaður og stjórnin telur 6 hinsegin meðlimi af 7 embættum. Það hlýtur að sýna svart á hvítu að Uppreisn er tilbúin til verka í jafnréttismálunum og við ætlum ekki að sofa á verðinum. Takk fyrir allan stuðninginn og hamingjuóskirnar, nú er það bara áfram veginn.”
Nýrri stjórn er óskað velfarnaðar á komandi starfsári og fráfarandi stjórn þökkuð vel unnin störf.