Ný verkefni á gömlum grunni

Verk­efn­in sem bíða að lokn­um kosn­ing­um eru mörg og mis­mun­andi. Nær öll voru þó fyr­ir­sjá­an­leg. Eitt var það alls ekki. For­dæma­laus staða kom upp þegar lands­kjör­stjórn gaf út kjör­bréf 63 þing­manna eft­ir að hafa kom­ist að þeirri niður­stöðu að óvíst væri að meðferð kjör­gagna og end­urtaln­ing at­kvæða í Norðvest­ur­kjör­dæmi hefði verið sam­kvæmt lög­um.

Þing­manna bíður nú það vanda­sama verk­efni að taka af­stöðu til þess hverj­ir úr þeirra röðum séu rétt­kjörn­ir. Sú staða hlýt­ur að leiða til þess að löngu tíma­bær­ar breyt­ing­ar verði gerðar á því fyr­ir­komu­lagi að þing­menn sitji þar beggja vegna borðs.

Fram hef­ur komið að þing­manna­nefnd­in sem nú er með málið þurfi ein­hverj­ar vik­ur í að meta lagarök málsaðila; þeirra sem bera ábyrgð á fram­kvæmd kosn­ing­anna og þeirra sem hafa kært end­urtaln­ingu at­kvæða.

Það er grund­vall­ar­atriði að ekki leiki vafi á því hverj­ir eru rétt­kjörn­ir full­trú­ar þjóðar­inn­ar. Kerfið okk­ar þarf að virka og það þarf að birt­ast fólki þannig að það skapi traust. Verði niðurstaðan sú að veru­leg­ir ann­mark­ar hafi verið á fram­kvæmd kosn­ing­anna er það ein­fald­lega for­senda ógild­ing­ar.

Viðreisn efna­hags­ins

Á meðan þing­menn reyna að finna út úr því hverj­ir þeirra eru rétt­kjörn­ir geng­ur lífið sinn vana­gang. Þar með talið efna­hags­lífið. Þótt von­ir standi til að bein áhrif af Covid-far­aldr­in­um fari þverr­andi sýna kann­an­ir vax­andi svart­sýni um þróun efna­hags­mála. Al­mennt er nú talið að nei­kvæð lang­tíma­áhrif far­ald­urs­ins verði meiri en út­lit var fyr­ir fyrr á þessu ári þegar gríðarlegt fram­lag stjórn­valda á heimsvísu til efna­hagsaðgerða og til­koma bólu­efna keyrði upp hraðari hag­vöxt en vænta mátti. Þegar hæg­ir á hag­vext­in­um en verðlag held­ur áfram að rísa sjá­um við fram á ástand sem skerðir verðmæta­sköp­un og lífs­gæði.

„The economy, stupid“ er ódauðlegt slag­orð úr smiðju kosn­inga­stjórn­ar Bills Cl­int­ons frá 1992. Þessi skila­boð eiga við nú sem aldrei fyrr þegar for­menn stjórn­mála­flokk­anna vinna í að koma sam­an rík­is­stjórn sem er best til þess fall­in að stýra landi og þjóð út úr Covid-brimsköfl­un­um. Hvernig við reis­um efna­hag­inn við í kjöl­far heims­far­ald­urs­ins hlýt­ur að vera fyrsta for­gangs­málið í viðræðum formann­anna, hvar í flokki sem þeir standa. Hvernig við tryggj­um sam­keppn­is­hæfni ís­lensks at­vinnu­lífs, hvernig við verj­um hag heim­ila, hvernig við mæt­um áskor­un­um í lofts­lags­mál­um.

Við mætt­um líka líta til ann­ars slag­orðs úr sömu kosn­inga­bar­áttu: „Breyt­ing­ar eða meira af hinu sama.“ Heim­fært á aðstæður okk­ar er svarið ekki annaðhvort eða, held­ur nýj­ar lausn­ir sem byggj­ast á rót­gró­inni þekk­ingu. Stöðug­leiki í stað stöðnun­ar.

Þriðja slag­orðið var síðan: „Ekki gleyma heil­brigðis­kerf­inu.“ Get­um við ekki öll verið sam­mála um gildi þess?

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. október 2021