Reglur um kosningaumsvif hagsmunaafla

Þorsteinn Pálsson

Ívor sem leið staðhæfði seðlabankastjóri að þjóðfélaginu væri stjórnað af hagsmunaöflum. Formaður bankaráðsins tók undir þau sjónarmið.

Þetta var einn af mörgum pólitískum leikjum núverandi seðlabankastjóra.

Forsætisráðherra setti hæversklega ofan í við hann í umræðum á Alþingi með því að staðhæfa að hann hefði ekki skýrt mál sitt út. Meining forsætisráðherra var greinilega sú að fyrir þær sakir væru ummælin ekki svaraverð.

Gagnrýni seðlabankastjóra

Ofur skiljanlegt var að pólitík seðlabankastjóra skyldi fara fyrir brjóstið á ríkisstjórninni í þetta skiptið. Í þessu tilviki fór hann eins og stundum út fyrir lögbundið hlutverk sitt.

Hitt er annað mál að sennilega eru fá dæmi þess að orð seðlabankastjóra hafi fallið í jafn frjóan jarðveg hjá allri alþýðu manna. Auðfundið var að þjóðin var sömu skoðunar. Í krafti embættis síns gaf hann slíkum hugsunum stóraukið vægi.

Ástæðan fyrir ummælum seðlabankastjóra voru átök Samherja við starfsfólk bankans. En trúlega hefur þorri fólks skynjað umræðuna í stærra samhengi.

Bitist um áhrif á Alþingi

Segja má að ummælin hafi svo orðið að áhrínsorðum í kosningabaráttunni í síðasta mánuði. Hún er því tilefni til að rifja upp þetta sérstaka pólitíska útspil seðlabankastjóra.

Aldrei fyrr hafa félög atvinnurekenda og launafólks blandað sér í kosningabaráttu til Alþings með jafn ríkum og afgerandi hætti. Þátttaka þeirra var álíka öflug og stjórnmálaflokkanna sjálfra, sem buðu fram fólk til setu á löggjafarþinginu.

Fáum gat blandast hugur um að þetta var kosningabarátta hagsmunaaflanna. Þau voru að bítast um áhrif á Alþingi.

Fjárhagslegir yfirburðir

Hagsmunasamtökin eru fjárhagslega margfalt öflugri en stjórnmálaflokkarnir. Þar er engu saman að jafna. Ríflegur stuðningur við stjórnmálaflokka úr ríkissjóði virkar eins og vasapeningar í þeim samanburði.

Í krafti fjárhagslegs styrkleika hafa hagsmunasamtökin einnig byggt upp öflugar hagdeildir og sérfræðingateymi til að vinna að stefnumótun. Í þeim samanburði eru jafnvel stærstu stjórnmálaflokkarnir á flæðiskeri.

Í kosningabaráttunni eiga hagsmunasamtökin oft greiðari aðgang með málflutning sinn að fréttatímum og fréttasíðum fjölmiðla. Það helgast af því að fundir og ráðstefnur stjórnmálaflokka flokkast sem áróður en í tilvikum hagsmunasamtaka sem málefnalegt framlag til upplýstrar umræðu.

Trúlega náðu SA mestum árangri

ASÍ talaði fyrir umbjóðendur sína með því að staðhæfa að nóg væri til. BSRB lagði svo áherslu á opinber störf.

Samtök atvinnulífsins slepptu því að ræða samkeppnisstöðu atvinnulífsins og ríkisfjármálin. Þau studdu óbreytta stjórn en gerðu stífa kröfu um stefnubreytingu í heilbrigðismálum.

Trúlega hafa þau náð mestum árangri hagsmunasamtakanna.

Aðgreining kosningastarfsemi og vinnumarkaðsstarfsemi

Hagsmunasamtökin á vinnumarkaðnum hafa lögbundið hlutverk, njóta lögvarinna réttinda og bera lögákveðnar skyldur. Að auki hafa þau stjórnarskrárvarinn rétt til þess að tjá sig um hvað eina sem þeim þykir ástæða til. Á það tjáningarfrelsi verða að sjálfsögðu ekki lögð nein bönd.

En þegar kemur að kosningum verður að hafa í huga að stjórnmálaflokkar lúta margs konar reglum. Þeir verða að birta reikninga. Eins verða þeir að birta lista yfir framlög yfir tilteknum mörkum. Allt er þetta gert til að tryggja gagnsæi og traust.

Eðlilegt væri að setja hagsmunasamtökum á vinnumarkaðnum svipaðar gagnsæisreglur. Óheimilt ætti að vera að nota félagsgjöld vegna vinnumarkaðstarfseminnar til kosningaumsvifa. Þau ætti að kosta með sjálfstæðri og aðgreindri fjáröflun.

Aðskilja ætti vinnumarkaðsstarfsemi og kosningastarfsemi í reikningshaldi. Kosningastarfsemin ætti einnig að lúta sams konar birtingarreglum og eftirliti ríkisendurskoðunar eins og reikningar stjórnmálaflokka. Birta ætti lista yfir einstök framlög, umfram tiltekin mörk, með sama hætti og stjórnmálaflokkum er gert.

Jafnræði

Þetta er óhjákvæmilegt að gera til þess að allir sitji við sama borð þegar kosið er til Alþingis. Fram hjá því má ekki líta að Alþingiskosningar eru kjarni lýðræðisins.

Viðbrögðin, sem pólitísk ummæli seðlabankastjóra um áhrif hagsmunaafla fengu fyrr á þessu ári, sýna að það er sterk tilfinning úti á meðal borgaranna að hagsmunaáhrifin kunni að ógna lýðræðinu.

Mikilvægt er að ríkisstjórn og Alþingi bregðist skjótt og markvisst við þeirri nýju stöðu, sem upp er komin.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 28. október 2021