27 okt Vertu til er vorið kallar á þig
Íslendingar halda þingkosningar á vorin, þegar sól fer að rísa og landið tekur lit á ný. Þannig hefur það verið í 38 ár, ef frá eru taldar síðustu þrennar kosningar. Kosningar 2016 fóru fram í október eftir að forsætisráðherra sagði af sér og sömuleiðis 2017 eftir að ríkisstjórn féll. Nú fyrir réttum mánuði voru kosningar haldnar að hausti þrátt fyrir að ríkisstjórnin hefði setið heilt kjörtímabil.
Ef við skoðum söguna frá lýðveldisstofnun hafa kosningar verið haldnar áður að hausti eða vetri í þrígang, það er árin 1949, 1959 og 1979. Í öllum þessum tilvikum ákváðu næstu ríkisstjórnir að hverfa ekki frá hinu hefðbundna fyrirkomulagi. Forystufólk þeirra tók á sig að sitja þrjú og hálft ár í stað fjögurra til að halda í þá venju sem skapast hefur í íslenskum stjórnmálum.
Þessi venja er ekki tilkomin að ástæðulausu. Ein af ástæðunum er að fjárlög hvers árs gilda út desember. Hafi ný fjárlög ekki verið samþykkt fyrir þann tíma mun ríkisstjórn skorta heimildir til að ráðstafa fé úr ríkissjóði. Við þurfum ekki að fjölyrða um áhrifin sem það hefur ef heilbrigðiskerfið, menntakerfið og aðrar grunnstoðir fá ekki nauðsynlegar fjárveitingar vegna þess að fjárlögum er ekki til að dreifa.
Þetta veit forystufólk stjórnmálaflokkanna mætavel. Í kjölfar kosninganna 2016 og 2017 voru fjárlög unnin með miklu hraði sem leiddi til óvissu meðal fólks sem treystir á grunnþjónustu hins opinbera og seinkaði nauðsynlegum umbótum.
Katrín Jakobsdóttir sagði fyrir nýafstaðnar kosningar að hún teldi tímann frá septemberlokum og fram að jólum duga til að standa að vandaðri fjárlagagerð. En nú hafa stjórnarmyndunarviðræður dregist á langinn. Tíminn sem við höfum til stefnu hefur styst um þriðjung frá því sem sitjandi forsætisráðherra taldi duga. Tíminn hefur náð því marki sem við vitum að dugar tæpast, og samt sést ekki enn til lands í viðræðum flokkanna. Hvað gerist þá?
Við þurfum skýra sýn í efnahagsstjórn landsins ef markmiðið er að viðhalda hagvexti eftir heimsfaraldurinn. Við þurfum stórar ákvarðanir í loftslagsmálum, heilbrigðismálum og í stuðningi við nýsköpun. Við þurfum markvissar aðgerðir í þágu hinna dreifðari byggða. Við þurfum samninga milli Sjúkratrygginga Íslands og sálfræðinga til að fylgja eftir lögum um niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu. Og þetta þarf að rúmast innan þess ramma sem settur hefur verið í fjármálaáætlun.
Ný ríkisstjórn mun ekki ráða vel við þetta stóra verkefni ef hún hyggst vinna það með hamagangi og látum á síðustu dögum ársins. Staðan var hins vegar fyrirséð um leið og tilkynnt var að kosningar yrðu haldnar að hausti en ekki vori. Og þurfti ekki óvæntar uppákomur til.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. október 2021