26 nóv Réttur kjósandans til að velja
Vikum saman hefur þingmannanefnd haft það verkefni að rannsaka framkvæmd kosninga í Norðvesturkjördæmi. Gerir hún það í kjölfar bókunar landskjörstjórnar þar sem fram kom að ekki lægju fyrir upplýsingar um fullnægjandi meðferð kjörgagna í kjördæminu. Sú sögulega bókun undirstrikar alvarleika málsins. Rannsókn þingsins hefur því ekki varðað það hvort frávik hafi verið á reglum heldur hversu alvarleg brotin voru. Ótrúleg hringekja sem fór af stað eftir endurtalningu í Norðvesturkjördæmi og áhrifin sem hún hafði á önnur kjördæmi undirstrika gallana í kosningakerfi okkar. Fimm þingmenn duttu út og fimm aðrir náðu kjöri. Sem stendur snýst álitaefnið um þessi vinnubrögð. Til lengri tíma litið varðar málið sjálft regluverkið um kosningar til þings.
Eftir alþingiskosningarnar 2013, 2016, 2017 og aftur í ár var styrkur flokka á þingi ekki í samræmi við fylgi þeirra. Ákveðnir flokkar hafa í gegnum tíðina fengið fleiri þingmenn kjörna en atkvæðafjöldi raunverulega tryggði þeim. Það felur einfaldlega í sér að þingið endurspeglar ekki að fullu vilja kjósenda. Í umræðu um framkvæmd kosninga í NV hefur verið rætt um rétt kjósenda til að vilji hans fái að koma fram með atkvæði hans og jafnframt rétt kjósenda að geta treyst framkvæmd og niðurstöðum kosninga. Í regluverki okkar í dag er til staðar innbyggð skekkja, sem fer gegn þessum grundvallarmarkmiðum. Réttur kjósandans er ekki að fullu virtur, því sumir kjósendur búa við þann veruleika að atkvæði þeirra telur til hálfs. Það er sömuleiðis ekki til þess fallið að auka traust kjósenda til kerfisins að þeir geti gert ráð fyrir að flokkar fái fleiri þingmenn en atkvæðin tryggðu þeim.
Margir furða sig á hvers vegna þessi skekkja um vægi atkvæða hefur ekki verið leiðrétt af hálfu þingsins. Tillaga í þá veruna var hins vegar á dagskrá þingsins í vor. Þegar þingið ræddi frumvarp til nýrra kosningalaga var ég í hópi þriggja þingmanna sem lagði fram breytingartillögu til þess að taka á þessu ójafnvægi. Breytingartillagan var felld af þingmönnum Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Vinstri grænna og Miðflokks.
Hverjar voru tillögurnar?
Tillögurnar voru annars vegar um fjölgun jöfnunarsæta til að tryggja að flokkar fengju þingmenn í sem mestu samræmi við fjölda atkvæða og hins vegar vegar um jöfnun atkvæðavægis milli kjördæma til að stuðla að auknu jafnrétti milli kjósenda. Jafnt vægi atkvæða eftir búsetu telst mannréttindamál að mati Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og Feneyjanefndar. Skipting landa í kjördæmi gerir hins vegar að verkum að vægi atkvæða verður aldrei hnífjafnt og það er heldur ekki markmiðið. Sanngirnisspurningin snýst um það hversu miklu má muna svo það brjóti ekki gegn mannréttindum fólks. Talið hefur verið að misvægi milli kjördæma geti verið um 10-15%. Hér er munurinn hins vegar næstum 100% þar sem hann er mestur. Stjórnarskráin gerir ráð fyrir að styrkur þingflokka sé í samræmi við fylgi þeirra í landinu og það er síðan hlutverk Alþingis að útfæra þetta markmið í kosningalögum. Að meirihluti Alþingis kjósi að gera það ekki felur í sér alvarlega vanvirðingu við stjórnarskrá.
Umræða á villigötum
um jafnt vægi atkvæða er viðkvæm. Mikilvægt er að hafa í huga að þessi umræða snýst um tvennt, jafnt vægi flokka og atkvæðavægi kjósenda. Stundum er talað eins og fullur jöfnuður eftir búsetu myndi þýða að allir þingmenn landsins kæmu af Suðvesturhorninu. Slík niðurstaða væri í mínum huga óverjandi einmitt með tilliti til mannréttindasjónarmiða. Stjórnarskráin mælir enda fyrir um að hvert kjördæmi skuli eiga að minnsta kosti sex kjördæmakjörna þingmenn. Stjórnarskráin ver því öll kjördæmi landsins með þeim hætti að þau munu aldrei eiga færri þingmenn en sem því nemur. Ójafnvægi atkvæða er sem stendur meira en 100% á milli Suðvesturkjördæmis og Norðvesturkjördæmis. Fyrir næstu kosningar verður þingmönnum Norðvestur fækkað í sjö í samræmi við stjórnarskrá. Yrði farið í að jafna leikinn að fullu innan ramma stjórnarskrár yrðu þingmenn Norðvestur sex talsins og gætu aldrei orðið færri en svo. Þeim myndi fækka um einn til viðbótar.
Það er hægt að jafna leikinn með tilliti til búsetu með fremur einföldum breytingum á kosningalögum, svo kjósendur búi ekki við jafn mikið ójafnrétti. Ákvæði stjórnarskrár um 6 þingmenn að lágmarki tryggir öllum kjördæmum landsins kjördæmakjörna þingmenn. Í vor höfnuðu ríkisstjórnarflokkarnir tillögum um að auka jafnrétti í þessu veruna. Og vilji kjósenda er enn ekki að öllu leyti virtur við úthlutun þingsæta til flokkanna. Á sama tíma og það er brýnt að rannsaka framkvæmd kosninganna í Norðvesturkjördæmi þá er ekki síður brýnt að taka kosningakerfið til gagngerrar endurskoðunar. Með það fyrir augum að tryggja jafnt atkvæðavægi og lýðræðislegan rétt kjósenda.