24 nóv Skýr vilji kjósenda?
Þingmenn í undirbúningskjörbréfanefnd Alþingis fengu risastórt verkefni í hendurnar eftir alþingiskosningarnar 25. september; að meta áhrif ámælisverðra vinnubragða yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi á gildi kjörbréfa fjölda þingmanna víða um landið. Á morgun er Alþingi ætlað að skera úr um niðurstöðuna.
Við upphaf vinnunnar lá fyrir sú bókun landskjörstjórnar að ekki hefði „borist staðfesting frá yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis á að meðferð og varðveisla kjörgagna á talningarstað í kjördæminu hafi verið fullnægjandi“. Þannig vakti landskjörstjórn athygli Alþingis á því að vafi kynni að vera á því að kjörgögn hefðu verið varin með þeim hætti að treysta mætti að þau endurspegluðu vilja kjósenda.
Nefndin hefur lagt á sig mikla vinnu og af ástæðu. Listinn yfir það sem miður fór við talningu og meðferð kjörgagna í Norðvesturkjördæmi er langur og upptalningin óþægileg svo ekki sé meira sagt. Alvarlegasti annmarkinn er auðvitað sá sem lýtur að vörslu kjörgagnanna á meðan yfirkjörstjórn gerði hlé á fundi sínum. Eins má nefna að meðferð vafaatkvæða var ekki í samræmi við lög og ekki hafa komið fram skýringar á þeim tilfærslum sem urðu á atkvæðatölum sem höfðu svo áhrif á úthlutun þingsæta í kjördæminu og úthlutun jöfnunarþingsæta.
Hagsmunir hverra?
Mun Alþingi staðfesta endurtalninguna í Norðvesturkjördæmi eða kalla eftir uppkosningu þar? Það er auðvitað réttmætt sjónarmið að telja uppkosningu í einu kjördæmi ósanngjarna í ljósi þess að kjósendur þess kjördæmis viti kosningaúrslit í öðrum kjördæmum þegar þeir kjósa að nýju. Það er hins vegar ekki verkefni Alþingis að svara þeirri sanngirnisspurningu heldur að meta meðferð og varðveislu kjörgagna í NV-kjördæmi. Var hún fullnægjandi svo hægt sé að meta kjörbréf þingmanna kjördæmisins gild? Gátu þeir fjölmörgu og um margt illskiljanlegu annmarkar sem voru á framkvæmd kosninga í Norðvesturkjördæmi haft áhrif á úrslit kosninganna eða ekki? Lög kveða svo einfaldlega á um að ef kosning í einu kjördæmi er metin ógild þá skal fara fram uppkosning í því kjördæmi eingöngu.
Í umræðunni um hagsmuni þingmanna eða þingflokka og hæfi þeirra til að tjá sig hefur aðalatriði málsins stundum gleymst. Við eigum öll hagsmuna að gæta, þeir hagsmunir eru hagsmunir kjósenda og traust á kosningum. Ef ekki hefur tekist að staðfesta að atkvæðaseðlar kjósenda í Norðvesturkjördæmi hafi verið tryggðir þarf vilji þeirra kjósenda að koma fram með öðrum hætti. Það verður við þessar aðstæður gert með uppkosningu með öllum þeim göllum sem hún vissulega felur í sér. Að leiða fram skýran vilja kjósenda trompar einfaldlega þá galla.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. nóvember 2021