28 des Án réttlætis verður samfélag einskis virði
Stjórnmálamenn hafa margir þann eiginleika að þeir eru fjarska glæsilegir, það er að segja að þeir líta betur út í fjarska en nánd. Leiðtogarnir voru glæsilegri og snjallari í gamla daga en þeir sem nú eru við stjórnvölinn. Nándin í nútímasamfélaginu gerir að það að verkum að kusk fellur oftar á hvítflibbann. Maður á heldur aldrei að blindast af snilli eða gæðum neins. Þegar grannt er skoðað eru þeir í besta falli skárri en flestir.
Á hinn bóginn gleymist oft að við erum ekki að kjósa guð almáttugan. Í kosningum á að velja stefnu og hæft fólk til þess að framfylgja henni, ekki þann fyndnasta, þá viðkunnanlegustu eða þann myndarlegasta, þó svo að þessir eiginleikar prýði líka gott fólk.
Vald spillir
Reynslan sýnir að völd breyta fólki. Geðugustu karlar og konur verða hrokafullir og hranalegir ráðherrar. Sumir ganga enn lengra og halda að sér leyfist allt. Uppljóstranir um kynferðislegt áreiti og ofbeldi frægra stjórnmálamanna berast víða að. Andrew Cuomo ríkisstjóri í New York vakti athygli fyrir skelegga framkomu á fyrstu dögum Covid-plágunnar og margir sáu þar fyrir sér forsetaefni. Í ljós kom að hann var káfari og klámkjaftur sem hrökklaðist úr embætti.
Í Frakklandi var Nicolas Hulot þjóðhetja, eins konar David Attenborough Frakka, foringi í umhverfishreyfingunni og umhverfisráðherra um skeið, virtur maður og vinsæll. Nú hafa að minnsta kosti fimm konur sakað hann um kynferðislegt ofbeldi og hann hefur dregið sig út úr sviðsljósinu, en neitar öllu.
Nú í haust var upplýst að helsti menningarpáfi kommúnista, gamli Stalínistinn Kristinn E. Andrésson, var haldinn barnagirnd. Fleiri ljót mál af þessu tagi hafa komið upp hér á landi og eflaust ekki allt komið fram enn. Sársauki fórnarlambanna er enn meiri þegar skaðvaldarnir gegna trúnaðarstöðum og njóta virðingar í samfélaginu.
Ólíklegt virðist að engir félagar þessara manna hafi vitað um nein af þessum málum. Vandinn er oft ekki bara vonda fólkið, heldur góða fólkið sem þegir.
Fortíðin var einfaldari
Eitt það versta sem fyrir stjórnmálamann kemur er að ná fram baráttumáli sínu. Gömlu stjórnmálaflokkarnir sem störfuðu fyrir 1918 gufuðu upp með fullveldinu. Sjálfstæðishetjurnar áttu engan samastað lengur. Eftir hrun kommúnismans hurfu bæði Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkurinn af sjónarsviðinu. Þessir flokkar voru með 28 þingmenn af 60 samtals árið 1978.
Tuttugu árum seinna ætluðu þeir að sameinast í Samfylkingunni, en sérhagsmunir og sérlyndi ollu því að til varð Vinstri hreyfingin – grænt framboð. Árið 2009 voru þessir tveir flokkar með 36 þingmenn af 63 og mynduðu meirihlutastjórn. Í kosningunum síðastliðið haust fengu þeir 14 þingmenn samtals, jafnmarga og Vinstri græn ein og sér fengu tólf árum áður. Gamli vinstri vængurinn er ekki svipur hjá sjón. Merkisberar hans eru í raun tveir smáflokkar.
Sjálfstæðismenn, sem lengst af studdu alþjóðavæðingu, jöfn tækifæri allra og markaðslausnir, hafa þó síður en svo nýtt sér tækifærið til þess að koma sínum gömlu baráttumálum fram. Þvert á móti hafa einangrunarsinnar og varðmenn sérhagsmuna sterka stöðu í flokknum og hann hefur minnkað úr 25 þingmönnum árið 2007 í 16 kosna í haust.
Fjöldi flokka á þingi sýnir að línurnar eru ekki lengur skarpar í stjórnmálunum. Að hluta til vegna þess að flokkarnir vilja hafa breiða skírskotun fremur en að fylkja sé um ákveðna sannfæringu eða málstað. Þeir verða einsleitir og fáir finna „sinn flokk“.
Ár umbyltingar eða stöðnunar?
Meðan Repúblikanar kysstu vönd Trumps og báðust auðmjúklega afsökunar á því að hafa ekki fótum troðið lýðræðið fyrir hann bjuggu Íslendingar sig undir breytingar. Í þrjú ár hafði setið að völdum ríkisstjórn sem gerði ekki neitt nema klekkja á heilbrigðiskerfinu, svo mjög að fáir tóku eftir miklum breytingum á því þótt heimsfaraldur væri í gangi.
Í lok janúar 2021 birti Gallup skoðanakönnun þar sem „hin frjálslynda miðja“, sem Kjarninn kallar svo, fékk góða útkomu. Samfylkingin tæplega 17%, Viðreisn nærri 12% og Píratar rúmlega 11%. Samtals rétt um 40%. Með þessi úrslit hefði Samfylking fengið 12 eða 13 þingmenn, Viðreisn átta og Píratar sjö. Miðflokkurinn hefði fengið fimm og ríkisstjórnin fallin.
Minnug boðorðs sannra kappa: Aldrei skyldi góður drengur láta þá skömm af sér spyrjast að kjósa frið ef ófriður er í boði, hófu Samfylkingin og Viðreisn kosningabaráttuna með innanflokkserjum. Flokkarnir náðu sér eftir það aldrei á strik. Fjögra ára stjórnarandstaða skilaði frjálslyndu miðjunni samtals rúmlega tveimur prósentustigum minna en kom upp úr kössunum árið 2017.
Stjórnarflokkarnir geta vel við unað. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn hafa endurheimt forna frægð sem stóru flokkarnir tveir, þó að 29 þingmenn séu vissulega nærri tug minna en flokkarnir fengu árið 2013. VG tapaði sannarlega þremur þingmönnum og fjórðungi fylgis, sem er þó ekkert hjá því að hafa glatað tiltrú sem vinstri flokkur. Hann nýtur þess aftur á móti að hafa viðkunnanlegan foringja sem stóru ríkisstjórnarflokkarnir sætta sig við.
Meðan VG smáeyddi Vaffinu úr stefnunni mjakaði Samfylkingin sér lengra til vinstri. Viðreisn fylgdi á eftir og reyndi að fylla það skarð sem Samfylkingin (og Björt framtíð) skildi eftir vinstra megin við miðjuna. Engir flokkanna riðu feitum hesti frá þessari hliðrun.
Flokkur fólksins hélt sig við einföld skilaboð eins og síðast. Kosningabarátta flokksins var vel heppnuð og fylgismenn hans höfðu trú á því að hugur fylgdi máli hjá foringjanum. Flokkurinn vann það afrek að fá kjördæmakjörinn mann í öllum kjördæmum landsins sem VG náði til dæmis ekki.
Miðflokkurinn ætlaði að flikka upp á ásjónu sína með því að ýta út nokkrum af Klausturköppunum. Það voru mistök. Nýju frambjóðendurnir höfðuðu ekki til kjarnafylgisins og uppskeran var eftir því, þrátt fyrir ótrúlega snjallt myndband af mataræði foringjans.
Sósíalistar buðu fram gamlan útrásarvíking í gallajakka, en þrátt fyrir þessa breiðu skírskotun var uppskeran ekki önnur en sú að tryggja foringjanum trausta afkomu á kjörtímabilinu. Það er samt nokkuð.
Óbreytt ástand en þó ekki
Eftir langar stjórnarmyndunarviðræður tókst flokkunum loks að ná saman um plagg sem enginn man stundinni lengur hvað stendur í. Líklega hefði verið erfitt að komast að annarri niðurstöðu. Formenn stjórnarflokkanna treysta hverjir öðrum, en bera lítið traust til foringja hinna flokkanna.
Flækjan fólst fyrst og fremst í því að það þurfti að búta stjórnarráðið niður og raða bútunum svo saman af handahófi til þess að hægt væri að bæta við nýjum Framsóknarráðherra. Aðalatriðið var samt að koma ráðherrum VG út úr heilbrigðis- og umhverfisráðuneytunum sem tókst.
Reyndar eru miklar vonir bundnar við Willum. Hann virðist vera skynsamur og réttsýnn maður. Verkefnið er ærið eftir langt niðurrifsferli undangengin ár, en tækifærin eru líka mörg. Vinstri menn hafa haft hagræðingu sem bannorð í heilbrigðiskerfinu og átta sig ekki á því að hún felst í því að gera jafnmikið eða meira, á jafngóðan eða betri hátt en áður fyrir minni peninga. Þá peninga er hægt að nýta í annað, til dæmis að flytja aðgerðir íslenskara lækna í Svíþjóð heim. Ef Willum gætir þess að undantekningar verði ekki regla verður hann góður ráðherra.
Þó að útgerðarmenn hafi smám saman eignast Ísland undanfarin ár þá hafa tvær eignir verið þeim öðrum kærari: Morgunblaðið og sjávarútvegsráðuneytið. Nú missa þeir vonandi það síðara þannig að tilfærslan er tvöfaldur sigur.
Á sínum tíma treysti formaður VG engum þingmanna sinna fyrir umhverfisráðuneytinu og fékk þangað utanþingsmann úr Landvernd til þess að ögra bæði Sjálfstæðismönnum og flokkssystkinum sínum með vísan til sérþekkingar hans. Nú er sá hinn sami kominn á þing og settur í eitt niðurskorna ráðuneytið. Svona eru örlögin skrítin.
Margir hafa horn í síðu Jóns Gunnarssonar sem verður dómsmálaráðherra. Jón er duglegur maður og vonandi nýtast kraftar hans til góðs í ráðuneytinu. Margir setja spurningarmerki við að hann skyldi velja Brynjar Níelsson sem aðstoðarmann, en gleymum því ekki að Brynjar hefur ekkert gert í ráðuneytinu ennþá og litlar líkur eru á að það breytist.
Fjármálin þarf að taka föstum tökum, en það er áhyggjuefni að lítil þekking er á hagfræði og viðskiptum á Alþingi. Enn eitt hallaárið í rekstri hins opinbera tekur við eftir helgi. Því miður er áfram losarabragur á útgjöldum. Ný ráðuneyti eru sögð kosta rúmlega hálfan milljarð á ári, sem eflaust er naumt metið. Fleiri ráðherrar þýða að fleiri heimta meiri peninga.
Á sama tíma flæða peningar til stjórnmálaflokkanna, svo mjög að þótt aðstoðarmenn séu í mörgum flokkum fleiri en þingmennirnir sjálfir náðu flokkarnir að safna digrum sjóðum á kjörtímabilinu. Þetta er hvorki skynsamlegt né siðlegt, síst af öllu meðan ríkissjóður er rekinn með bullandi halla. Stjórnarflokkana skortir skilning á því að það eina sem hjálpar í öllum kreppum er að skulda ekki of mikið. Þetta á við um alla, ríki, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga.
Er lán að skulda?
Næsta vor velja kjósendur sér nýjar sveitarstjórnir. Þótt flest verkefni sveitarstjórna snúi að daglegum rekstri grunnstofnana er samt nokkur pólitík til og rými fyrir hugsjónir. Sá einstæði viðburður varð á Seltjarnarnesi að meirihluti bæjarstjórnar ákvað að hækka útsvar í stað þess að taka lán. Nú er ég ekki talsmaður hárra skatta, en skuldasöfnun er flutningur á vanda dagsins í dag til komandi kynslóða. Það þurfti kjark til að taka á vandanum. Sem betur fer voru til bæjarfulltrúar sem höfðu þann kjark. Næsta skref er vonandi að hagræða í rekstrinum.
Á Akureyri ákváðu bæjarfulltrúar að hætta með meiri- og minnihluta á miðju kjörtímabilinu. Að sumu leyti er það skynsamleg afstaða. Í stjórnum fyrirtækja er sjaldnast stjórnarandstaða eða minnihluti, en þar ræða menn sig oftast til sameiginlegrar niðurstöðu. Hvers vegna skyldi það ekki líka ganga í bæjarstjórnum? Bæjarfélög eru eins og stór fyrirtæki. Í bæjarstjórnum er reyndar lítill skilningur á því að framkvæmdastjórinn á að sjá um daglegan rekstur og vera andlitið út á við. Í bæjarstjórnum eru mörg og stór egó.
Nýr Dagur?
Augu flestra staðnæmast við Reykjavík. Í Sjálfstæðisflokknum átti að beita gamalkunnugum vinnubrögðum til þess að tryggja óbreyttan oddvita þegar ákveðið var að hafa leiðtogakosningu, en öðrum yrði raðað á lista. Prófkjör eru auðvitað meingallað fyrirkomulag sem, rétt eins og lýðræðið, hafa þann eina kost að aðrar aðferðir eru enn verri. Félagi minn sagðist hafa verið spurður um Eyþór Arnalds í skoðanakönnun nýlega.
Eyþór, sem fyrir nokkrum dögum lýsti ánægju sinni með foringjaprófkjörið, hafði ekkert heyrt af þessari könnun. Hann ákvað aftur á móti að láta hjartað ráða og hætta afskiptum af borgarmálefnum. Kannski snýr hann sér að rekstri blaðsins sem hann á með útgerðinni. Það verður spennandi hvort Hildur Björnsdóttir gefur ein kost á sér í oddvitavalinu eða hvort nú gilda önnur sjónarmið.
Meiri eindrægni hefur reyndar ríkt í meirihlutanum á kjörtímabilinu en í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna. Sjálfstæðisflokkurinn er undarleg breiðfylking í Reykjavík. Í Alþingiskosningunum var engu líkara en frjálslyndi armurinn byði fram í Reykjavík suður en íhaldskjarninn í Reykjavík norður.
Ekki er víst að samheldni nægi núverandi meirihluta til þess að halda völdum. Braggamálið olli miklum titringi, en það var í sjálfu sér smámál í samanburði við mörg önnur. Ný gas – og jarðgerðarstöð Sorpu á Álfsnesi kostar 5-6 milljarða, en þar virðist flest hafa misfarist sem misfarist gat: Enginn markaður, flaustursleg hönnun, úrelt tækni, milljarða útgjöld.
Auðvitað liggur ábyrgðin bæði hjá Sjálfstæðisflokknum sem stýrir fimm af sex sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og meirihlutanum sem var í Reykjavík þegar samþykkt var að reisa verksmiðjuna. En hefur verið tekið í taumana? Engum sögum fer af því.
Nú á að flytja Malbikunarstöðina Höfða sem er í eigu Reykjavíkurborgar. Einhvern tíma voru örugglega rök fyrir því að borgin ræki slíka stöð. En nú sinna önnur fyrirtæki slíkri þjónustu og hlægilegt að sveitarfélag sé í samkeppni við þau. Hvers vegna ekki að selja fyrirtækið á þessum tímamótum?
Borgin hefur þegjandi og hljóðalítið stofnað hugbúnaðarhús sem stefnir að því að ráða 60 sérfræðinga. Líklega er það vitlausasta ráðstöfun núverandi meirihluta í borginni að bjóða ekki út verkefnið, sem felst í skilvirkara borgarkerfi. Aðferðin er að þenja það út.
Formleg athugun leiðir í ljós að Sundabraut sé skynsamleg framkvæmd. Sú niðurstaða blasir á hverjum degi við öllum íbúum í Grafarvogi sem ekki eru innmúraðir Samfylkingarmenn. Það er hollt og gott að ganga og hjóla: Best væru að það gerðu sem flestir, en greiðar samgöngur eru aðalsmerki allra góðra borga. Fátítt mun að borgarfulltrúar dragi lappir í slíkum framfaramálum sem brautin vissulega yrði.
Besti flokkurinn vann árið 2010 stórsigur út á það að vera „eitthvað annað“. En hann þorði að taka á fjármálum borgarinnar. Listinn hér að framan, sem alls ekki er tæmandi, gefur til kynna að flokkur sem setti framangreind mál á oddinn gæti náð góðum árangri í kosningum í vor.
Umræðan um aukaatriðin
Því miður er umræða nú þögul um meginmálin í stjórnmálum. Litla athygli vekur að ríkisstjórnin byrjar feril sinn á því að bjarga Bændasamtökunum með því að kaupa Hótel Sögu háu verði og treður upp á Háskólann. Dýrt verður að breyta hótelinu þannig að það nýtist skólanum. Samtímis selur hann húsnæði Kennaraháskólans gamla við Stakkahlíð. Einhverjum datt í hug að skynsamlegt væri að breyta því í hótel. Hugmynd fyrir Reykjavíkurborg?
Næsta skref ríkisstjórnarinnar verður að niðurgreiða áburð fyrir bændur. Landbúnaður á Íslandi gæti auðveldlega orðið miklu farsælli en nú, ef stjórnmálamenn væru ekki stöðugt með krumlurnar í honum á kostnað skattborgara. Markmiðið er heldur ekki velferð bænda heldur kerfisins.
Enginn flokkur talaði svo heyrðist fyrir kosningar um ósanngirnina í því að færa útgerðarmönnum kvótann á silfurfati í stað þess að selja hann á uppboði, nema helst Flokkur fólksins.
Evrópumálin eru feimnismál í stjórnmálum, þrátt fyrir að stór hluti þjóðarinnar vilji skipa sér í sveit með nágrannaþjóðunum. Nánast eina umræðan um þau mál er í málgagni útgerðarmanna, sem kvartar undan því að Evrópusambandið vilji stemma stigu við fasískum stjórnarháttum í Póllandi og Ungverjalandi.
Margir sakna Morgunblaðsins, en það er ágætt blað (að frátöldum 13,7%) þótt fáir njóti þess nú orðið. Um hver áramót er maður hrelldur með því að skipta eigi um ritstjóra. Hver á þá að segja brandarann um Biden í kjallaranum, sem gengið hefur að minnsta kosti 20 sinnum í ritstjórnargreinum, alltaf jafnfyndinn?
Um jólin lést Desmond Tutu, biskup frá Suður-Afríku, sem fékk Nóbelsverðlaunin fyrir baráttu sína gegn aðskilnaðarstefnunni. Hann var ódeigur liðsmaður í baráttunni gegn óréttlæti og kúgun í öllum myndum og sagði eitthvað á þessa leið: „Sá sem horfir á ranglæti án þess að segja neitt, tekur afstöðu með því.“