28 des Námsmenn fái að sinna námi sínu af fullum þunga
Íslenskir háskólastúdentar hafa almennt meiri fjárhagsáhyggjur en aðrir evrópskir námsmenn. Árum saman hefur komið fram af hálfu stúdenta og Stúdentaráðs að grunnframfærsla námslána sé of lág til að námsmenn geti framfleytt sér. Þess vegna vinna stúdentar á Íslandi margir hverjir töluvert mikið með námi. Við blasir að það er til þess fallið að draga úr námshraða sem og námsárangri. Svo lág grunnframfærsla vinnur þá gegn framvindu háskólanámsins.
Ég lagði nýlega fram frumvarp um breytingu á lögum um Menntasjóð námsmanna. Markmiðið er að tryggja að námsmenn geti framfleytt sér án þess að þurfa að vinna með námi og að bæta með því námsframvindu námsmanna. Þessar tillögur eru að norrænni fyrirmynd og eru tvíþættar.
Námsstyrkir innleiddir
Verði frumvarpið að lögum geta nemendur geti sótt um námsstyrk sem nemur 72.000 kr. á mánuði miðað við fulla námsframvindu, í að hámarki 5 skólaár. Þessu fyrirkomulagi er ætlað að skapa aðstæður og hvata fyrir námsmenn til vera í fullu námi og að bæta þar með námsframvindu. Stuðningur sem þessi er mikilvægur fyrir námsmenn en um leið mikilvægur fyrir háskólana. Með bættri námsframvindu útskrifast nemendur á skemmri tíma og líkur á brottfalli minnka. Með því nýtist fjármagn háskólanna betur og um leið fjármagn ríkisins. Hin breytingin sem lögð er til í frumvarpinu er að grunnframfærsla námslána skuli að lágmarki nema neysluviðmiði félagsmálaráðuneytis og skuli taka hækkunum í samræmi við verðlag. Svo er ekki í núgildandi lögum. Með þessari breytingu yrði tryggt að grunnframfærsla námslána yrði hin sama og stuðst er við í viðmiðum félagsmálaráðuneytis um aðra hópa. Í gildandi lögum um Menntasjóð námsmanna segir ekki skýrt hver framfærsluviðmiðin skuli vera og námsmönnum er heldur ekki tryggð hækkun á framfærslu í samræmi við verðlag.
Þýðingarmiklar breytingar
Þetta eru tvær einfaldar en þýðingarmiklar breytingar sem óskandi er að fái umfjöllun á þinginu og verði að lögum. Með því að tryggja námsmönnum betri kjör má ná því fram að námsmenn á Íslandi tefjist ekki í námi sínu vegna þess að þeir þurfa að vinna svo mikið. Það er námsmönnum, háskólunum, atvinnulífinu og ríkiskassanum til góða. Viðreisn hefur frá því að flokkurinn var stofnaður árið 2016 lagt þunga áherslu á menntamál. Við teljum að hér sé hægt að gera betur og að það eigi að gera betur. Eftir efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldurs er enn meiri ástæða til að fjárfesta markvisst í menntun og í menntakerfinu og taka með því markviss skref í átt að fjölbreyttara atvinnulífi. Menntun leiðir til nýsköpunar og almennrar velferðar í samfélaginu. Þetta er einfaldlega staðreynd. Með aukinni áherslu á menntun og nýsköpun sköpum við eftirsóknarverð störf, framleiðni eykst og við mótum samfélag sem laðar að sér hæfileikaríka einstaklinga. Með þessu tryggjum við að ungt fólk sem sækir sér framhaldsmenntun erlendis velji að koma aftur heim. Liður í því að tryggja næstu kynslóð samkeppnishæf lífskjör er að störf á Íslandi standist samkeppni að utan. Sú samkeppni snýst vissulega um kjör en ekki síður um hvernig störf við bjóðum og hvernig starfsumhverfi við bjóðum.
Hagsmunir stúdenta
Stjórnvöld verða að standa með og standa vörð um háskólamenntun með því að gera háskólum kleift að sækja fram. Það er gert með því að búa háskólunum góð rekstrarskilyrði og upp á það hefur skort, enda stöndum við Norðurlandaþjóðum að baki hvað varðar framlög til háskólamenntunar. Og það verður jafnframt gert með því að tryggja háskólastúdentum viðunandi aðstæður til náms. Þessu frumvarpi er ætlað að ná fram þessu grundvallarmarkmiði.