22 des Þau sem bjarga
Það er ómetanlegt fyrir fjölskyldu í einangrun vegna kórónuveitusmits að finna velvild fjölskyldu og vina sem leggja óhikað alls kyns lykkjur á leið sína til að aðstoða og gleðja. Það skiptir engu hvort um er að ræða aðstoð við jólagjafakaup eða matarinnkaup, bakstur eða ísgerð, boð um afþreyingarefni á borð við púsluspil eða bækur eða aðrar útréttingar.
Við erum fámenn og samheldin þjóð og sem betur fer eiga flest okkar góða bakhjarla þegar á móti blæs. Það er hins vegar mikilvægt í erli dagsins að muna eftir þeim sem ekki eiga marga að. Okkur er öllum hollt að staldra við og athuga hvort við getum einhvers staðar boðið fram hjálparhönd. Þannig styrkjum við og eflum það samfélag sem við viljum búa okkur og börnum okkar til frambúðar.
Eitt fallegasta einkenni íslensks samfélags eru félögin sem við eigum um allt land og hafa tekið sér það hlutverk að starfa að björgun, leit og gæslu í þágu almennings. Björgunar- og hjálparsveitir sem bjarga bæði mannslífum og verðmætum, alla daga ársins sama hvað á gengur. Við leitum til þeirra vegna óveðurs eða björgunar úr sjávarháska og snjóflóðum, þegar fólk týnist, þegar aðstoða þarf fórnarlömb náttúruhamfara og við gæslu á stórviðburðum svo fátt eitt sé talið.
Félagar björgunarsveitanna eru sjálfboðaliðar sem verja ómældum tíma og orku í þjálfun og undirbúning auk þess að nýta stóran hluta frítíma síns, þar með talin sumar- og jólafrí, í verkefni sem tengjast þessu mikilvæga og óeigingjarna hjálparstarfi í okkar þágu. Eitt af stóru verkefnunum er fjáröflun, því öll þessi starfsemi kostar pening þótt björgunarsveitarfélagar gefi eigin vinnu.
Heimakstur á jólatrjám
Jól og áramót eru annatími hjá björgunarsveitunum. Þetta er líka sá tími ársins sem alla jafna hefur gefið vel í fjáröflun margra þeirra. Fyrst og fremst með sölu jólatrjáa og flugelda. Það segir sitt um útsjónarsemina og kraftinn að nú þegar fjöldi heimila er í kórónuveirueinangrun og fjölskyldur eiga þess vegna erfitt með að nálgast jólatré, þá bjóða sveitirnar upp á heimakstur á jólatrjám og greni. Okkar jólatré er þannig komið í hús.
Við fjölskyldan verðum vonandi komin á ról á milli jóla og nýárs til að geta sjálf mætt á okkar vanalega stað í Öskjuhlíðinni að kaupa flugelda af björgunarsveitinni okkar. Ég treysti því góða fólki sem þar starfar til að ráðleggja okkur við kaupin með umhverfissjónarmið í huga. Við ætlum okkur að minnsta kosti að finna áfram leið til að styrkja björgunarsveitir.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. desember 2021