Verjum Hafnarfjörð!

Íbúar í vesturbæ og miðbæ Hafnarfjarðar hafa látið í sér heyra og skilaboðin eru skýr: Við treystum ykkur ekki.

Hin stórgóða hugmynd um verndarsvæði í byggð þar sem gamli bærinn í vesturhluta Hafnarfjarðar verður verndaður er góð og þörf og mun gera mikið fyrir bæinn okkar. Aftur á móti læddust með heimildir til handa bæjaryfirvöldum til að rífa 19 hús við Reykjavíkurveg sem stendur við jaðar þessa fyrirhugaðs verndarsvæðis. Íbúar og ekki síst eigendur þessara fasteigna fá áfall þegar þau lesa um það á samfélagsmiðlum að til standi að rífa heimili þeirra án þess að nokkur manneskja hafi gert tilraun til að ræða við þau um möguleg áform. Ég get bara talað fyrir mig og sagt að ef þetta kæmi fyrir mig yrði ég ansi reiður.

Formaður skipulagsráðs mætir í sjónvarpið og segist skilja fólkið en málið sé á misskilningi byggt og þetta sé einungis heimild sem líklega verður ekki notuð. Það væri gott og gilt nema fyrir þá ástæðu að við erum í Hafnarfirði, bæ sem á ansi skrautlega sögu um það sem margir kalla skipulagsslys, en ég leyfi mér að kalla skipulagssvik. Á undanförnum áratugum hefur skipulag Hafnarfjarðar mótast af reglulegum skipulagssvikum þar sem lokamynd er í engu samræmi við lofræður í upphafi verkefna.

Þess vegna skil ég vel að enginn trúi yfirvaldinu þegar það segist þurfa heimild sem það ætlar líklega ekki að nota.

Greinin birtist fyrst í Fjarðarfréttum 1. desember 2021