VG valdar stöðuna býsna vel

Þorsteinn Pálsson

Sumir stjórn­mála­skýr­endur telja að VG hafi farið hall­oka í samningum stjórnar­flokkanna um nýjan stjórnar­sátt­mála og upp­stokkun ráðu­neyta.

Til að komast að þessari niður­stöðu verða menn þó að horfa á VG eins og hún var. Þá má segja sem svo að VG hefði lík­lega fengið meira út úr því að taka Fram­sókn með í sam­starf við Sam­fylkingu og Flokk fólksins.

Veru­leikinn er hins vegar allt annar.

Flóknara dæmi

VG er ekki lengur rót­tækur flokkur nema í náttúru­vernd. Fyrir fjórum árum náði hann þeirri stöðu að ráða hvernig ríkis­stjórn yrði mynduð og hélt henni þrátt fyrir veru­legt tap í kosningunum.

Þorri kjós­enda VG er sáttur við kyrr­stöðu­pólitík í efna­hags­málum. At­vinnu­lífið er hins vegar við­kvæmara fyrir henni. Að því leyti gæti Sjálf­stæðis­flokkurinn verið í þrengri stöðu en VG eftir endur­nýjun sam­starfsins.

Ýmsir telja að VG hafi fórnað drottningu með því að láta um­hverfis­ráðu­neytið af hendi til Sjálf­stæðis­flokksins og fallast á að orku­málin yrðu hluti af þeim pakka. En dæmið er að­eins flóknara.

Auð­velt þóf

Á sumum sviðum er lög­gjöf svo opin að ráð­herra getur án laga­breytinga og sam­ráðs við sam­starfs­flokka breytt stefnunni í grund­vallar­at­riðum. Heil­brigðis­ráð­herra nýtti sér þetta á síðasta kjör­tíma­bili.

Í orku­málunum getur ráð­herra hins vegar ekki hreyft sig um hænu­fet án nýrra laga­heimilda og sam­komu­lags við sam­starfs­flokka. VG hefur því full­komið stöðvunar­vald á þessu sviði, sem Sjálf­stæðis­flokkurinn hafði ekki í heil­brigðis­málunum á síðasta kjör­tíma­bili.

Ekki verður því annað séð en að VG hafi valdað þessa stöðu býsna vel. Þau þurfa ekki að hafa meira fyrir því að þæfa orku­málin en Sjálf­stæðis­flokkurinn hafði fyrir því að bregða fæti fyrir stjórnar­skrár­mál for­sætis­ráð­herra á síðasta kjör­tíma­bili.

Þver­stæðan

Lofts­lags­málin og orku­málin eru eitt stærsta við­fangs­efni næstu ára. Þver­stæðan í ís­lenskri pólitík endur­speglast með afar skýrum hætti á þessu mála­sviði.

Án orku­skipta ná menn tak­mörkuðum árangri í að koma í veg fyrir kol­efnislosun. Og án nýrra virkjana verður lítið úr orku­skiptum.

Ungir um­hverfis­sinnar gáfu Sjálf­stæðis­flokknum fall­ein­kunn í lofts­lags­málum fyrir kosningar. En VG kom út með láði.

Veru­leikinn er hins vegar sá að VG er á móti nauð­syn­legum virkjunum til þess að orku­skiptin geti átt sér stað. En leifarnar af gömlu stór­iðju­stefnunni gera það að verkum að Sjálf­stæðis­flokkurinn er til­búinn til þess að virkja til þess að ná settum lofts­lags­mark­miðum.

Við erum á þeim tíma­punkti að komast ekki hjá því að for­gangs­raða eða miðla málum milli náttúru­verndar og lofts­lags­verndar. En VG getur það ekki.

Í raun og veru hefur VG því komið innri pólitískum veik­leika í þessu efni yfir á Sjálf­stæðis­flokkinn.

Á­byrgðin

Mjög ó­lík­legt er að VG muni nota neitunar­valdið til þess að stöðva allar virkjana­fram­kvæmdir. En á­kvarðanir verða dregnar á langinn og þær munu á endanum hvorki duga til þess að full­nægja kröfum um orku­skipti né til þess að ná fram­sæknum hug­myndum um að nota orku í ríkari mæli til verð­mæta­sköpunar.

Náist lofts­lags­mark­miðin ekki situr Sjálf­stæðis­flokkurinn uppi með á­byrgðina. En VG verður í skjóli.

Að auki mun það reynast Sjálf­stæðis­flokknum erfitt ef hann getur ekki nýtt þetta kjör­tíma­bil til þess að virkja fyrir nýja verð­mæta­sköpun.

Við­snúningur

Hætt er við að skila­boðin um fjölgun ráðu­neyta fari illa í þorra kjós­enda Sjálf­stæðis­flokksins. En út­þensla báknsins og fjölgun ríkis­starfs­manna veldur for­ystu VG ekki erfið­leikum gagn­vart kjós­endum sínum.

Gagn­rýni úr at­vinnu­lífinu á ríkis­fjár­mála­stefnuna fyrir að leggja ekkert af mörkum til þess að ná niður verð­bólgu og verja lág­vaxta­um­hverfið, bitnar fyrst og fremst á Sjálf­stæðis­flokknum. Hún skemmir aftur á móti minna fyrir VG.

Spár um að utan­ríkis­við­skiptin dragi hag­vöxt niður eftir næsta ár, benda til þess að Sjálf­stæðis­flokknum hafi ekki tekist að tryggja sam­keppnis­hæfni at­vinnu­lífsins nægjan­lega vel. Það er auð­veldara fyrir VG að segja að nóg sé til og við getum lifað á aukinni einka­neyslu.

Niður­staðan er sú að líkur eru á að sam­starfið á þessu kjör­tíma­bili verði Sjálf­stæðis­flokknum erfiðara en VG. Það yrði við­snúningur.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 9. desember 2021