07 jan Herrar eða þjónar
Á þeim fimm dögum sem ég sat sem varaþingmaður á Alþingi kom mér ýmislegt spánskt fyrir sjónir og margt kom mér ánægjulega á óvart. Það sem var ánægjulegt var hvað vel var tekið á móti okkur varaþingmönnunum og á það bæði við um starfsfólk Alþingis og þingmenn. Það kom mér hins vegar verulega á óvart hversu stéttaskiptingin á Alþingi er áberandi.
Ráðherrar mæta til starfa hver á sínum svarta ráðherrabíl með sínum einkabílstjóra. Ráðherrarnir hafa sín hásæti í þinginu og eru ávarpaðir hæstvirtir meðan við óbreyttir þingmenn erum settir skör neðar og ávarpaðir háttvirtir sem reyndar dugði mér ágætlega. Mér er sagt að hvergi á Vesturlöndum séu þingmenn og ráðherrar ávarpaðir með mismunandi hætti, þar eru allir jafnir.
Einnig hef ég heyrt að víðast hvar séu ráðherrar ekki með sinn einkabíl og einkabílstjóra. Flest lönd hafa tekið upp þá reglu að hafa nokkra bíla til umráða og panta ráðherrar bíla eftir þörfum. Skutlubílar myndu duga hér í að flytja ráðherrana okkar frá þingi að ráðuneytum enda innan við kílómetra að fara í flestum tilfellum.
Starfsheitið ráðherra er umhugsunarvert enda er það mjög gildishlaðið. Það tengist orðinu drottnari og að vera sjálfs sín herra, að eiga engan yfirmann. Í flestum löndum er talað um „minister“ sem kemur af orðinu þjónn á latínu enda eiga ráðherrar að þjóna þinginu og þegnum landsins en ekki öfugt.
Í raun eru þingmenn yfirmenn ráðherranna samkvæmt stjórnskipan Íslands enda starfa ráðherrar í umboði Alþingis samkvæmt þingræðisreglunni. Þar segir einnig að ráðherrar framfylgi fyrirmælum, ákvörðunum, lögum og þingsályktunartillögum Alþingis.
Það vakti athygli mína að ráðherrar mættu lítið í umræður en voru oftar viðstaddir atkvæðagreiðslur. Þessu mættu þeir bæta úr að mínu mati.
Furðulegt fannst mér að heyra ráðherra skamma okkur þingmenn fyrir að nenna ekki að vinna fram á morgun og þeir voru sagðir vera með skrílslæti þegar reynt var að laga fjármagn að settum lögum um sálfræðiþjónustu frá í fyrra.
Þeir mættu að mínu mati sýna yfirmönnum sínum, þingmönnunum, meiri virðingu.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 7. janúar 2022