Prófkjör hjá Viðreisn í Reykjavík

Félagsfundur Reykjavíkurráðs Viðreisnar ákvað í gærkvöldi að prófkjör yrði haldið til að velja á lista Viðreisnar fyrir næstkomandi sveitarstjórnarkosningar í Reykjavík. Er þetta í fyrsta sinn sem ákveðið er að listar Viðreisnar skuli ráðast með prófkjöri en ekki uppstillingu, sem hefur verið meginregla Viðreisnar til þessa.

Á fundinum var einnig kjörin uppstillingarnefnd og kjörstjórn. Mun kjörstjórn fljótlega leggja fram tillögu um hvenær prófkjörið verði haldið og fjölda sæta sem kosið verður um. Prófkjör þarf að auglýsa með a.m.k. 30 daga fyrirvara. Þá þurfa áhugasamir að tilkynna þátttöku sína a.m.k. 15 dögum fyrir prófkjörið.

Samkvæmt nýsamþykktum reglum Viðreisnar um prófkjör eru kjörgengir allir félagsmenn sem 18 ára eru á kjördag sveitarstjórnarkosninga, 14. maí nk., sem búa í Reykjavík og hafa verið skráðir félagar í Viðreisn a.m.k. 15 dögum fyrir prófkjörsdag.  Allir félagsmenn Viðreisnar, sem búsettir eru í Reykjavík og hafa verið félagsmenn í a.m.k. þrjá daga fyrir prófkjör hafa kosningarétt.

Að afloknu prófkjöri mun uppstillingarnefnd ganga frá tillögum sínum um framboðslista, í samræmi við niðurstöður prófkjörs. Hún skal tryggja sem jöfnust kynjahlutföll á framboðslistum, þar sem einstaklingar af sama kyni skulu ekki vera í samliggjandi sætum.

Viðreisn í Reykjavík hefur tvo borgarfulltrúa í dag, þau Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur og Pawel Bartoszek. Varaborgarfulltrúar eru Diljá Ámundadóttir Zoëga og Geir Finnsson.