15 feb Hvað eru tveir milljarðar milli vina?
„Ég treysti mér ekki til að setja tölu á bak við það en það er ljóst að með því að stofna nýtt ráðuneyti, fleiri en eitt, þá mun verða kostnaður og hann getur hlaupið á hundruðum milljóna,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra spurður á Alþingi um kostnað við að stofna tvö ný ráðuneyti og fjölga ráðherrum í ríkisstjórn. Síðar kom í ljós að nýju ráðuneytin munu kosta ríkið að lágmarki 1,8 milljarða þetta kjörtímabilið samkvæmt svörum frá fjármálaráðuneytinu sjálfu. Fjármálaráðuneytið upplýsti þá jafnframt um að nokkur óvissa væri og að kostnaðurinn gæti orðið nokkru hærri.
Fjölmennasta ríkisstjórn í Íslandssögunni
Við afgreiðslu fjárlaga í desember síðastliðnum var gert ráð fyrir að ríkissjóður verði rekinn með tæplega 170 milljarða halla þetta árið. Fram undan er krefjandi tími fyrir ríkið sem og almenning. Komandi kjarasamningar í skugga verðbólgu og vaxtahækkana. Í tengslum við verðbólgu og vaxtahækkanir talar fjármálaráðherra um að það þurfi að vanda sig í opinberri fjármálagerð og áætlanagerð til næstu ára. Hann hefur minnt á að laun og launakostnaður hafi í fyrra hækkað um sjö og hálft prósent. Engu að síður komst hann að þeirri niðurstöðu eftir átta vikna stjórnarmyndunarviðræður að skynsamlegt væri að fjölga ráðuneytum og auka hraustlega við launakostnað við Stjórnarráðið en biðla kannski bara til annarra að vanda sig. Ákvörðun formanna ríkisstjórnarflokkanna um að fjölga ráðuneytum virðist hafa verið tekin án þess að fyrir lægi greining á kostnaði. Svari við fyrirspurn um kostnað við stækkun Stjórnarráðsins var síðan einhverra hluta vegna dreift til þingmanna örfáum klukkustundum eftir að atkvæði voru greidd um málið. Það er spurning hvort þessar tölur hefðu hreyft við þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna eða hvort einhugur sé á milli þeirra um þessa meðferð fjármuna á tímum þar sem skilaboðin eru að það þurfi að vanda sig sérstaklega í opinberum fjármálum.
Hvers vegna voru ráðuneyti sameinuð eftir hrun?
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er með þessari breytingu orðin sú fjölmennasta sem hefur verið við völd í meira en áratug. Ráðherrarnir eru jafn margir og þeir urðu flestir í Íslandssögunni sem var á árunum 1999 til 2010. Ráðherrum var svo fækkað í átta árið 2012 með sameiningu ráðuneyta. Hvers vegna var farið í að fækka ráðuneytum og stækka eftir hrun? Þar réð kostnaður vissulega miklu en ekki síður sú staðreynd að minni ráðuneyti voru einfaldlega veikari. Einn af lærdómum hrunsins var að ráðuneytin höfðu verið of veik til að standa undir mikilvægum hlutverkum sínum og verkefnum. Starfshópur um viðbrögð stjórnsýslunnar við rannsóknarskýrslu Alþingis skilaði af sér skýrslu þar sem fram kom mat á þeim atriðum sem vörðuðu starfshætti Stjórnarráðsins og stjórnsýsluna sérstaklega. Meginniðurstöðurnar voru að hinn faglegi grundvöllur stjórnsýslunnar væri veikur, ekki bara vegna ómarkvissra pólitískra inngripa í störf hennar heldur ekki síður vegna smæðar eininga hennar. Niðurstaðan var skýr um að stærri ráðuneyti séu undirstaða í að styrkja hinn faglega grundvöll stjórnsýslunnar. Það kallaði á átak í sameiningu ráðuneyta og stofnana. Nú, áratug síðar, velur ríkisstjórnin sér að fara gegn þessum niðurstöðum. Með ráðstöfun sem fer skv. þessu gegn hagsmunum Stjórnarráðsins og almennings í landinu.
Stærri ráðuneyti styrkja starf þeirra
Að baki fjölgun ráðuneyta býr auðvitað engin knýjandi þörf. Engin önnur en að fjölga ráðherrum svo valdahlutföllin milli stjórnarflokkanna haldist. Milljarðakapallinn er afleiðing þess að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn samþykktu að Vinstri græn héldu þremur ráðherrastólum þrátt fyrir töluvert fylgistap VG og gjaldið fyrir að langminnsti flokkurinn í samstarfinu fái samt að leiða ríkisstjórnina. Þá þurfti að jafna leikinn með því að fjölga ráðherrum. Hér þarf að segja hið augljósa: Fyrir það borgar almenningur og fyrirtækin í landinu. Þá liggur jafnframt fyrir að inni í þessum tölum er ekki allur kostnaður. Annar kostnaður verður t.d. þegar talsverðar tilfærslur eru gerðar á starfsmönnum, en það rask hefur í för með sér kostnaðarsamar tafir. Nýtt Stjórnarráð tók ekki formlega til starfa fyrr en 1. febrúar, en kosið var 25. september og ríkisstjórn mynduð 28. nóvember.
Aftur og aftur sést að þrátt fyrir tal um ábyrgan ríkisrekstur þá er unnið eftir allt annarri hugmyndafræði. Ríkissjóður var enda orðinn ósjálfbær fyrir efnahagshremmingar heimsfaraldurs. Þegar allar aðstæður voru í lagi var staða ríkissjóðs langt frá því að vera í lagi. Og í því ljósi kemur kannski ekki á óvart að í stjórnarmyndunarviðræðunum hafi formenn ríkisstjórnarflokkanna sagt hver við annan: Hvað eru tveir milljarðar á milli vina?
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. febrúar 2022