Hver erum við?

Enn og aft­ur er ís­lenska þjóðarskút­an að sigla inn í tíma­bil verðbólgu og vaxta­hækk­ana. Enn og aft­ur leita stjórn­völd log­andi ljósi að öðrum skýr­ing­um en þeirri aug­ljósu sem ligg­ur í örgjald­miðlin­um okk­ar sem hopp­ar og skopp­ar eins og korktappi í öldu­róti efna­hags­lífs­ins og ýkir til muna þær sveifl­ur sem aðrar þjóðir búa við. Brús­ann borg­ar svo al­menn­ing­ur hér á landi, ekki síst í formi hækk­andi lána. Enn og aft­ur.

Það er ekk­ert sér­stak­lega traust­vekj­andi að fylgj­ast með viðbrögðum rík­is­stjórn­ar­inn­ar og fylgi­fisk­um henn­ar nú þegar verðbólgu­draug­ur­inn, þessi gamli fjand­vin­ur ís­lensks al­menn­ings, er kom­inn aft­ur á kreik. Þær af­sak­an­ir sem rík­is­stjórn­in og fylgi­fisk­ar henn­ar hafa helst kynnt til sög­unn­ar gera lítið annað en að magna upp draug­inn. Í fyrsta lagi að þetta sé inn­flutt Covid-verðbólga sem ekki sé hægt að eiga við. Hins veg­ar að verðbólg­an sé hús­næðis­stefnu Reykja­vík­ur­borg­ar að kenna.

Það er frá­leit sögu­skýr­ing að láta sem rík­is­stjórn­in sé stikk­frí. Hækk­un verðbólgu á heimsvísu má vissu­lega rekja til kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins en þær miklu sveifl­ur sem við búum við hér á landi eru hins veg­ar sér­ís­lenskt ástand. Íslensku of­ur­sveifl­urn­ar eru sem sagt ekki nátt­úru­lög­mál, held­ur af­leiðing­ar ákv­arðana og aðgerða rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Þess­ar sveifl­ur eru fyrst og fremst tengd­ar gjald­miðlin­um okk­ar, þar sem blessaður sveigj­an­leik­inn þýðir á manna­máli reglu­bundna kjararýrn­um fyr­ir fólk og flest fyr­ir­tæki.

En krón­an frí­ar ekki rík­is­stjórn­ina ann­arri ábyrgð á stöðunni. Í ára­móta­blaði Viðskipta­blaðsins og Frjálsr­ar versl­un­ar var áhuga­vert viðtal við Sig­ríði Bene­dikts­dótt­ur, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóra fjár­mála­stöðug­leika Seðlabank­ans. Þar var meðal ann­ars komið inn á þær aðstæður sem eru uppi á hús­næðismarkaði þar sem mik­il eft­ir­spurn hef­ur keyrt verðið upp. Sig­ríður seg­ir m.a. ljóst að það hefði mátt sjá fyr­ir hvaða áhrif vaxta­lækk­an­ir Seðlabank­ans myndu hafa á fast­eigna­markaðinn. Eðli­leg­ast og skyn­sam­leg­ast hefði verið að greiðslu­meta alla kaup­end­ur miðað við 7% nafn­vexti líkt og t.d. Bret­ar geri óháð því á hvaða vöxt­um lán eru tek­in. Sig­ríður seg­ir síðan: „Við erum hins veg­ar kom­in í kerfi sem fæst­ar þjóðir í heim­in­um vilja vera með. […] Breska pundið er mun stöðugra en okk­ar gjald­miðill sem leiðir það af sér að verðlag er einnig mun stöðugra þar í landi. Ef Bret­ar sjá þörf á slík­um varúðarráðstöf­un­um, eins og að festa vexti í upp­hafi láns­tíma og greiðslu­meta miðað við 7% nafn­vexti – hver erum við?“

Já, hver erum við? Og hvernig vilj­um við vera? Vilj­um við ekki vera þjóð þar sem aðgerðir stjórn­valda frek­ar en af­sak­an­ir eru leiðarljós­in út úr vand­an­um hverju sinni? Þjóð þar sem störf rík­is­stjórn­ar eru í þágu al­menn­ings?

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. febrúar 2022