16 feb Sterkari saman
Seint á síðasta ári sendi minn gamli heimabær Tálknafjörður spennandi erindi á flest sveitarfélög á Vestfjörðum þar sem áhugi á viðræðum um sameiningu var kannaður. Persónulega fannst mér það skemmtilegt að sjá mína gömlu heimabyggð leggja fram svona framsækið mál. Mér þótti það því ekki bara leiðinlegt að sjá þau neikvæðu viðbrögð sem hugmyndin fékk frá öðrum sveitarfélögum, það voru líka vonbrigði þegar Vesturbyggð rétti fram hönd sameiningar en Tálknafjörður sló á hana. Eins og flestir vita þá eru lítil sveitarfélög um allt land að berjast í bökkum við að halda úti lágmarksþjónustu við íbúa sína. Sameining er því ein besta leiðin til að létta á rekstri minni sveitarfélaga og tryggja að þau geti sinnt tilheyrandi þjónustu með sóma.
Sameining er ekki bara tækifæri til að auðvelda rekstur heldur gegnir hún líka lykilhlutverki í að efla litlu byggðirnar okkar og gera þær að spennandi kostum fyrir fólk að flytja til. Eitt skýrasta og besta dæmið í því er Flateyri, sem hefur náð að byggja upp spennandi byggð þar sem ungt fólk kemur til að stunda nám. Þar hefur sameining veitt byggðinni öfluga spyrnu til að byggja sig frekar upp sem svæði þar sem fólk getur skotið rótum. Þessi ákvörðun Flateyrar, að verða hluti af stærri heild, þ.e. Ísafjarðarbæjar, er gott dæmi um að sameining er ekki dauðadómur fyrir minni byggðir heldur getur þvert á móti verið ein besta leiðin til að tryggja að fjármunir séu notaðir í uppbyggingu byggðar frekar en að vera stöðugt í baráttu við að halda sér réttum megin við núllið. Fleiri spennandi leiðir í sameiningu má sjá eins og t.d. hjá Múlaþingi þar sem heimastjórnir tryggja að vissar ákvarðanir séu teknar í heimabyggð og tryggja þannig að ákveðið vald haldist heima í héraði.
Samkeppni um fólk og hæfileika hefur breyst mikið síðustu ár. Hér áður fyrr valdi fólk hvort það vildi búa í Reykjavík eða úti á landi en í dag er valið meira milli Íslands eða annarra landa. Sterk sameinuð sveitarfélög, sem geta boðið upp á blómlegt mannlíf, geta vel verið spennandi kostur fyrir marga. Á tímum bættra fjarskipta og fjölgunar starfa óháð staðsetningu geta lítil sveitarfélög t.d. boðið ungu fólki heim aftur í hérað þar sem kunnátta þess og menntun nýtist ekki bara sveitarfélaginu heldur samfélaginu í heild. Sveitarfélög sem berjast í bökkum við að halda uppi grunnrekstri ná aldrei að verða spennandi kostur en lítil byggð í sameinuðu sveitarfélagi getur það.
Þótt ég sé vissulega brottfluttur Tálknfirðingur í dag mun ég seint kalla mig eitthvað annað en Tálknfirðing. Það sama á við um Tálknafjörð, sem verður alltaf Tálknafjörður með Pollinn til að heimsækja seint á sumarnóttu og Hópið til að næla sér í pósthússtangir. Það breytist ekkert, sama hvort það er sjálfstætt sveitarfélag eða hluti af öflugri heild. Saman eru litlar byggðir þessa lands mun sterkari en hver í sínu horni að berjast við að halda sér á floti.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. febrúar 2022