Verbúðin í núinu

Eigum við að ræða aðeins meira um Verbúðina? Þessa snilldarþætti sem staðsetja okkur svo rækilega í fortíðinni að við erum meira að segja farin að horfa á línulega dagskrá. Við rifjum upp tíðarandann og gleðjumst um leið yfir því hversu mikið samfélagið okkar hefur mótast og þroskast.

Bjórinn kom við sögu í síðasta þætti. Eftir miklar deilur var ákveðið að leyfa þann forboðna drykk. Ekki í þeim tilgangi að auka við almenna drykkju, heldur miklu fremur vegna þess að ríkisvaldið á að treysta borgurunum meira fyrir eigin velferð en tíðkaðist áður.

Þættirnir fanga líka vel hversu almennar reykingar voru á þessum árum en í dag spúum við ekki sígarettureyk yfir börnin okkar. Og það hafa orðið fleiri róttækar lýðheilsuframfarir því túberað hár heyrir sögunni til og krumpugallarnir og herðapúðar í yfirstærð sjást varla lengur og er það vel.

Við brosum yfir kjánalegum klæðaburði, hlæjum af kauðslegum karakterum og vörpum öndinni léttar yfir því að vera ekki lengur svona búraleg og lummó. Á sama tíma fyllumst við nostalgíu og fortíðarþrá yfir þáttunum, því þetta er jú partur af sögunni okkar.

En þættirnir sýna líka vel óheilbrigt samband stjórnmála og viðskipta þar sem sérhagsmunir fárra eru settir skör ofar hagsmunum almennings.

Um leið og við brosum og fyllumst fortíðarþrá skulum við því hafa það hugfast á sunnudagskvöldum, að umhverfið sem þættirnir sýna er ekki bara fortíð, heldur líka nútíð.

Tíðarandi tískunnar er vissulega horfinn en hinn pólitíski tíðarandi og veruleiki er enn til staðar. Áratugum síðar standa heilu stjórnmálaflokkarnir enn grimman vörð um sérréttindi. Sérréttindi sem skapa gríðarlegan arð sem í orðsins fyllstu merkingu er veiddur í troll og landað inn á bankareikninga útgerðarinnar, án þess að þjóðinni sé greitt eðlilegt markaðsgjald fyrir. Og varðstaðan snýst ekki síður um að koma í veg fyrir þá sjálfsögðu breytingu að sett sé í stjórnarskrá almennilegt auðlindaákvæði sem tryggir hagsmuni okkar allra en ekki bara fárra. Ákvæði sem kemur í veg fyrir að fyrirtæki hafi ótímabundinn rétt til að veiða fisk sem þjóðin á sameiginlega.

Verbúðin sýnir okkur fæðingu þessa óréttlætis. Það er grátleg staðreynd að efniviðurinn í framhaldsþáttaraðir nær til dagsins í dag. Vonandi verða þær seríur gerðar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. febrúar 2022