08 feb Von um forystu
Ég var sautján ára þegar ég varð bikarmeistari með ÍR í handbolta í Laugardalshöllinni. Það var dásamleg gleði og geðshræring sem braust út hjá okkur stelpunum fyrir hátt í fjörutíu árum síðan.
Hálf þjóðin og meira en það á minningar úr þessu merkilega húsi, allt frá því að fylgjast með heimsmeistaraeinvígi í skák yfir í að öskra sig hása. Við kunnum það. Áfram, Ísland. Og upplifa allan tilfinningaskalann sem fylgir íþróttum, sætum sigrum sem svekkjandi ósigrum. Sem voru vissulega ekki alltaf dómurunum að kenna.
Laugardalshöllin hefur svo sannarlega þjónað tilgangi sínum. En fallega höllin okkar er barn síns tíma. Það þarf nýja höll. Ellegar fáum við ekki að leika landsleikina okkar í handbolta og körfu hér heima.
Ég spurði því Ásmund Einar, ráðherra íþróttamála, um stöðu nýrrar Þjóðarhallar fyrir handboltann, körfuboltann og fleiri greinar. Ef fram heldur sem horfir, stefnir í að við verðum eins og sveitarómagar á nágrannalöndum okkar vegna aðstöðuleysis.
Það þýðir ekki eingöngu að vera stoltur af landsliðunum okkar á tyllidögum heldur skiptir öllu máli að styðja afreksfólkið okkar alla leið og tryggja viðeigandi umgjörð og aðstöðu. Ef við viljum á annað borð styðja við þessar íþróttagreinar sem skipta okkur svo miklu máli. Og sameina okkur sem þjóð.
Þetta snýst ekki bara um aðstöðu og umgjörð íþróttafólksins heldur líka fólkið í landinu. Það verður einnig að fá tækifæri til að fylgja landsliðum okkar á heimavelli og hvetja áfram. Þannig fá landsliðin okkar líka viðbótarmann á vellinum. Því við vitum hvers við erum megnug með fulla höll.
Reykjavíkurborg er tilbúin með skipulagið og hefur lagt fjármuni til hliðar. Svar ráðherra veitti mér ákveðna bjartsýni um að hann muni beita sér í þessu mikilvæga máli því við vorum sammála um að það væri nóg komið af hópum, nefndum, ráðum og skýrslum. Enda liggur allt fyrir. Síðustu fjögur árin hefur verið skortur á pólitískri forystu hjá fyrrverandi ráðherra íþróttamála í þessu mikilvæga máli. En nú virðist vindáttin vera að breytast. Það er fagnaðarefni.