Ekki hjá okkur?

Ég fékk gríðarlega sterk og já­kvæð viðbrögð við frum­varpi mínu um að gera það refsi­vert að neyða ein­stak­ling til að bæla eða reyna að breyta kyn­hneigð sinni, kyn­vit­und eða kyntján­ingu. Ég geymi mér frá­sagn­ir sem mér hef­ur verið trúað fyr­ir af fólki sem hef­ur verið misþyrmt, and­lega eða lík­am­lega, í þess­um til­gangi.

Þau voru hins veg­ar líka fyr­ir­sjá­an­leg viðbrögðin sem voru á þá leið að þetta frum­varp væri full­kom­inn óþarfi. Ég skil vel að fólk sem ekki þekk­ir til eigi erfitt með að trúa því að svona skelfi­legt at­hæfi viðgang­ist hér á Íslandi. Hér er þó skautað yfir aðal­atriði máls­ins sem er að misþyrm­ing­ar af þessu tagi, svo­kallaðar bæl­ing­armeðferðir, varða ekki við lög núna. Í sér­stök­um kafla ís­lenskra hegn­ing­ar­laga er fjallað um brot gegn frjáls­ræði manna. List­inn er lang­ur en ekki tæm­andi og eitt af því sem hegn­ing­ar­lög­in ná ekki til er bæl­ing­armeðferðir á hinseg­in fólki. Sam­kvæmt frum­varp­inu sem ég hef lagt fram verður líka lög­fest bann við slík­um meðferðum á börn­um, hvort sem þær eru fram­kvæmd­ar hér á landi eða barnið flutt úr landi í þeim til­gangi, og við því að fram­kvæma eða hvetja, með bein­um eða óbein­um hætti, til slíkra meðferða.

Það er sann­ar­lega ekki að ástæðulausu að bæl­ing­armeðferðir hafa víða um heim verið bannaðar með lög­um að viðlagðri refs­ingu. Enn víðar er slíkt bann í bíg­erð. Ísland hef­ur á alþjóðavett­vangi ít­rekað lýst yfir and­stöðu við slík­ar meðferðir, t.d. á fundi mann­rétt­indaráðs Sam­einuðu þjóðanna sum­arið 2020, þar sem fjallað var um skýrslu ráðsins um al­var­leg­ar af­leiðing­ar bæl­ing­armeðferða á hinseg­in fólki.

Mörg þúsund Íslend­ing­ar hafa til­heyrt sér­trú­ar­söfnuðum. Þess­ir söfnuðir starfa gjarn­an í nafni kær­leika og umb­urðarlynd­is en reynsla margra er því miður önn­ur. Í vik­unni kafaði frétta­skýr­ingaþátt­ur­inn Komp­ás ofan í hug­takið trú­arof­beldi og ræddi við fyrr­ver­andi fé­laga sér­trú­arsafnaða á Íslandi. Þar lýsti fólk því hvernig for­dóm­ar gegn hinseg­in fólki eru alltumlykj­andi og þeim aðferðum sem beitt er til að „reka synd­ina burt“. Fyr­ir utan lík­am­lega of­beldið þá er and­legu of­beldi beitt til að tengja upp­lif­un þoland­ans á kyn­hneigð, kyn­vit­und eða kyntján­ingu sinni við sárs­auka og skömm. Fólk er kerf­is­bundið brotið niður þar til það fer að trúa því sjálft að það eigi ekk­ert gott skilið. Sekt­ar­kennd­in og van­líðanin á víst að duga til að breyta fólki þannig að það verði Guði þess­ara sér­trú­arsafnaða þókn­an­legt. Staðreynd­in er auðvitað önn­ur eins og allt viti borið fólk veit.

Það er tíma­bært að stíga skrefið til fulls, færa okk­ur til nú­tím­ans og festa í lög hér bann við svona al­var­legri aðför að frelsi og heilsu hinseg­in fólks.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. mars 2022