Er ekki bara best að treysta þjóðinni?

Þegar ríkisstjórn Samfylkingar og VG ákvað að sækja um fulla aðild að Evrópusambandinu árið 2009 lögðum við Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins til að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildar­umsókn. Við litum svo á að um væri að ræða stóra ákvörðun, sem hefði margvísleg áhrif á hag landsmanna til langs tíma, þó að við séum aðilar að kjarna samstarfsins með EES-samningnum. Því væri rétt að þjóðin sjálf fengi að ráða því hvort haldið yrði af stað í þessa vegferð. Ég var þá og er enn sannfærð um að hagsmunum Íslands sé best borgið í þessu fjölþætta samstarfi Evrópuþjóða, sem flestar eru reyndar einnig bandamenn okkar í NATO. Og ég er enn sömu skoðunar, að málið sé af þeirri stærðargráðu að best fari á því að þjóðin sjálf taki hvort tveggja ákvörðun um að hefja viðræður og eftir atvikum að samþykkja eða hafna samningi um fulla aðild að þeim loknum.

Sama sjónarmið kom fram hjá Katrínu Jakobsdóttur árið 2015. Hún var þá meðflutningsmaður að þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort viðræður um fulla aðild yrðu teknar upp aftur. Núna er ég meðflutningsmaður að þingsályktunartillögu þingmanna Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata um þjóðaratkvæðagreiðslu. Sú tillaga fylgir þessari sömu hugsun að þjóðin sjálf fái að ákveða hvort þetta upphafsskref verði stigið.

Heimsmyndin hefur breyst mikið frá því að við gerðumst aðilar að innri markaði Evrópusambandsins og hófum þátttöku í Schengen-samstarfinu. Stríðið í Úkraínu hefur á örskömmum tíma valdið miklum breytingum og aukið óvissuna á alþjóðasviðinu. Valdajafnvægið í heiminum hefur raskast. Aldrei hefur verið brýnna að flétta saman samvinnu um efnahag og varnir. Okkar hagsmunir og gildi eru í húfi. Á þessum óvissutímum sem nú eru uppi hníga veigamikil rök að því að Ísland leiti öruggara skjóls í bandalagi með þeim þjóðum sem fylgja sömu lífsgildum.

Einföld spurning kemur því upp í hugann: Er ekki bara best að treysta þjóðinni?

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. mars 2022