Hjartað í Evrópu

Ein sterk­asta minn­ing mín úr æsku teng­ist því þegar ég stóð fyr­ir fram­an hús skóla­syst­ur minn­ar sem var að brenna til kaldra kola. Eng­inn slasaðist en fátt bjargaðist af ver­ald­leg­um mun­um. Ég var eðli­lega upp­tek­in af þess­um at­b­urði og for­eldr­ar mín­ir róuðu mig með því að ræða um mik­il­vægi for­varna. Hvernig við gæt­um búið okk­ur und­ir það óvænta. Hvernig við reyn­um að tryggja okk­ur fyr­ir því versta.

Það er kviknað í Evr­ópu núna. Manns­líf, heim­ili, framtíðar­plön, sam­fé­lög. Pútín Rúss­lands­for­seti og her­menn hans hlífa engu. Mitt í rúst­un­um stend­ur Selenskí for­seti Úkraínu og seg­ir við heim­inn: „Við erum ekki bara að verja landið okk­ar, við erum að verja Evr­ópu.“ Þjóðhöfðingj­ar Evr­ópu, þar með talið Íslands, tala enda einu máli um að stríðsrekst­ur Pútíns í Úkraínu sé árás á vest­ræn gildi. Árás á þau gildi frels­is, jafn­rétt­is og mann­rétt­inda sem hafa verið fest í sessi í vest­ræn­um lýðræðis­ríkj­um frá lok­um síðari heims­styrj­ald­ar.

Það er því dap­ur­legt að heyra mál­flutn­ing hér á landi um að nú sé ekki rétti tím­inn til að ræða ör­ygg­is- og varn­ar­hags­muni Íslands. Að það jaðri við tæki­færis­mennsku að færa slíkt í tal á þess­um tím­um. Ég held reynd­ar að fólk sem þannig tal­ar trúi fæst eig­in orðum. Hand­rit­inu hef­ur hins veg­ar verið dreift. Staðreynd­in er auðvitað sú að það er grafal­var­legt ef reyna á í al­vöru að þagga umræðu um mál sem varðar grund­vall­ar­hags­muni Íslands. Eng­inn get­ur tekið sér slíkt dag­skrár­vald í lýðræðis­sam­fé­lagi, ekki einu sinni kjör­in stjórn­völd. Það eina sem ávinnst er að viðkom­andi sýn­ir svo ekki verður um villst fram á eigið getu­leysi við að leiða varn­ar- og ör­ygg­is­mál Íslands í nýrri og breyttri heims­mynd. Og eng­in fýlu­köst eða gíf­ur­yrði ein­staka stjórn­mála­manna breyta þeirri staðreynd að Evr­ópu­sam­bandið er í for­ystu­hlut­verki við að standa vörð um þau gildi sem við byggj­um á. Að hjarta okk­ar er í Evr­ópu.

Blóðbaðið í Úkraínu er sterk áminn­ing um það hversu fljótt veður geta skip­ast í lofti. Að leið lýðræðisþjóða í Evr­ópu til að tryggja hags­muni sína felst í aðild að Evr­ópu­sam­band­inu og Atlants­hafs­banda­lag­inu. Í þeim anda hef­ur Viðreisn lagt fram þings­álykt­un­ar­til­lögu um aukið alþjóðlegt sam­starf í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um þar sem ut­an­rík­is­ráðherra yrði m.a. falið að meta kosti þess að stíga loka­skrefið að fullri aðild að Evr­ópu­sam­band­inu. Slíkt skref verður ekki stigið í einu vet­fangi en nýtt stöðumat er óhjá­kvæmi­legt. Fyrsta skrefið er að opna umræðu, sem hef­ur verið lokuð. Í þeirri lok­un felst nefni­lega óviðun­andi upp­gjöf fyr­ir verk­efn­um sam­tím­ans.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. mars 2022