Prófkjör Viðreisnar í Reykjavík

Föstudaginn 4. mars kl. 9 hefst kosning í prófkjöri Viðreisnar í Reykjavík á síðunni https://vidreisn.is/profkjor/. Kosning stendur yfir á netinu til kl. 16 laugardaginn 5. mars.

Laugardaginn 5. mars verður einnig hægt að greiða atkvæði í persónu milli kl. 9 og 16, í fundarherbergi á 3. hæð í Ármúla 42. Kjörstaður er aðgengilegur með lyftu.

Allir félagar í Viðreisn geta kosið sem hafa lögheimili í Reykjavík, eru orðnir 16 ára og voru skráðir í flokkinn fyrir miðnætti 1. mars sl.

Til þess að skrá sig inn í rafræna kosningu þarf fólk að hafa annað hvort rafræn skilríki eða Íslykil. Hægt er að sækja um rafræn skilríki hjá því farsímafyrirtæki sem fólk er í viðskiptum við og Íslykil má panta hér. Þótt kjósandi skrái sig inn eru rafræn atkvæði ópersónugreinanleg og órekjanleg.

Sjö einstaklingar eru í framboði og kosið er um fjögur efstu sætin á framboðslista Viðreisnar í Reykjavík. Kjósandi merkir 1 við þann frambjóðanda sem hann kýs í 1. sæti á listanum, 2 við þann sem hann kýs í 2. sæti o.s.frv. Hvorki skal merkja við fleiri né færri en 4 frambjóðendur. Í rafrænum kosningum er ekki hægt að skila inn seðli nema nákvæmlega 4 frambjóðendur hafi verið valdir. Þó er einnig hægt að skila inn auðum kjörseðli, bæði í rafrænni kosningu og skriflegri.

Farið verður með skriflegu kosninguna líkt og um utankjörfundaratkvæði sé að ræða. Kjósandi fær prentaðan kjörseðil í hendurnar, fyllir hann út í einrúmi og setur í ómerkt umslag. Það umslag er síðan sett í annað umslag sem er merkt með kennitölu kjósanda og því skilað í innsiglaðan kjörkassa.

Þegar kosningu líkur verða skrifleg atkvæði borin saman við kjörskrá og hafi sami kjósandi kosið bæði rafrænt og skriflega verður pappírsatkvæði hans eytt, óopnuðu og í votta viðurvist. Hafi kjósandi aðeins greitt atkvæði skriflega verður ómerkta umslagið tekið úr merkta umslaginu og sett í kjörkassa með öðrum skriflegum atkvæðum í ómerktum umslögum. Sá kassi verður síðan opnaður og atkvæðin talin með rafrænum atkvæðum.

Að talningu lokinni mun kjörstjórn birta niðurstöður prófkjörsins og afhenda þær síðan uppstillingarnefnd, sem ber ábyrgð á uppröðun framboðslistans í heild sinni að teknu tilliti til niðurstaðna prófkjörsins og ákvæða 19. gr. reglna um röðun á framboðslista Viðreisnar.

Frambjóðendur sem gefa kost á sér eru:

Anna Kristín Jensdóttir í 3.-4. sæti

Diljá Ámundadóttir Zoëga í 3. sæti

Erlingur Sigvaldason í 3.-4. sæti

Geir Finnsson í 3. sæti

Pawel Bartoszek í 2. sæti

Þórdís Jóna Sigurðardóttir í 1. sæti

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir í 1. sæti