30 mar Þjóðarleikvangar og brostin loforð ríkisstjórnarinnar
Þjóðarleikvangar okkar Íslendinga, fyrir bæði inni- og útiíþróttir, eru börn síns tíma og standast ekki nútímakröfur. Ekki fyrir leikmenn, ekki fyrir starfsfólk og ekki fyrir áhorfendur. Þetta vita allir sem það vilja vita. Þar á meðal ríkisstjórn VG, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks sem síðustu 5 ár hefur reglulega hrist loforðapokann sinn svo það hefur glumið duglega í. Í pokanum er meðal annars loforð um nýja þjóðarleikvanga.
Haustið 2020 sagði Lilja Alfreðsdóttir þáverandi íþróttamálaráðherra í sérstakri tilkynningu ráðuneytisins að hún væri „vongóð um að þjóðarleikvangur i knattspyrnu muni rísa á næstu fimm árum – fyrir árið 2025.“ Síðan hefur ekki bólað á fjármagni af hálfu ríkisstjórnarinnar til þessa mikilvæga verkefnis. Og í fjármálaáætlun til næstu 5 ára sem nú er kynnt er ekki gert ráð fyrir þjóðarleikvöngum í íþróttum. Það sé bara ekki tímabært. Þetta er auðvitað mikil fjarstæða, við erum frekar að renna út á tíma hér ef íþróttir eiga áfram að geta gegnt sínu mikilvæga hlutverki í þágu þjóðarinnar.
Staðreyndin er sú að á síðustu árum hafa verið unnar úttektir, starfshópar settir á laggirnar og málin rædd í þaula. Auk þess er stutt síðan Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra lýsti því yfir að allar forsendur væru fyrir því að farið verði í byggingu þjóðarleikvanga, gott ef ekki að það yrðu heimaleikir á nýjum þjóðarleikvangi á kjörtímabilinu.
Í kjölfar þess að enn og aftur skilar ríkisstjórnin auðu þegar kemur að byggingu nýrra þjóðarleikvanga berast fréttir af því að Reykjavíkurborg geti ekki beðið lengur með það fjármagn sem þar hefur verið tekið frá í verkefnið. Peningarnir verði notaðir í aðra íþróttauppbyggingu ef ríkinu er ekki alvara með sína aðkomu.
Það þarf að fara að skrifa lokakaflann í þessari annars endalausu sögu um háttstemmdar yfirlýsingar, loforð og vanefndir ríkisstjórnarinnar. Þjóðin þarf þjóðarleikvanga sem standa undir nafni.