Þjónusta í nærumhverfi í – myndu ekki fleiri njóta góðs af?

Einstaklingar í samfélaginu eru jafn mismunandi og þeir eru margir. Ætla má að einhvern tímann á lífsleiðinni þurfi flestir að leita sér aðstoðar af ýmsum ástæðum; álag, veikindi, sjúkdómar og svo mætti áfram telja. Í mörgum tilfellum er um að ræða fólk sem þarf þjónustuna til lengri tíma, jafnvel ævilangt. Fyrir þá einstaklinga, getur það haft margvísleg neikvæð hliðaráhrif á líf einstaklingsins sem þó myndu batna með ákveðnum breytingum sem margir gætu notið góðs af.

Tökum dæmi af nemanda í unglingadeild almenns hverfisgrunnskóla. Um er að ræða nemanda sem er líkamlega fatlaður vegna veikinda snemma í æsku og útlit er fyrir að hann muni búa við þá fötlun ævilangt. Af þeim sökum hefur honum verið ráðlagt af læknum og öðrum sérfræðingum að leita sér þjónustu sjúkra- og iðjuþjálfa vikulega til að draga úr neikvæðum áhrifum fötlunar sinnar og koma í veg fyrir ýmsa fylgikvilla. Þá hefur honum einnig verið ráðlagt að fara varlega í ákveðnum aðstæðum þar sem hann getur verið í hættu staddur. Þess vegna er talið ráðlegt að hann sleppi íþróttum í skólanum sem kenndar eru samkvæmt námskrá og fari í sjúkra- og iðjuþjálfun í staðinn. Þar sem hann er í unglingadeild eru valgreinar oft kenndar eftir hádegi og hann þar af leiðandi oft í skólanum fram eftir degi. Þá hefur þessi nemandi einnig áhuga á að sækja félagsmiðstöðina við sinn skóla. Í upphafi skólaárs er ákveðið að þessi nemandi fari í sjúkraþjálfun einu sinni í viku þegar bekkurinn hans fer í íþróttatíma, þar sem það er kennt sem síðasti tími fyrir frímínútur og hádegismat, en um tvöfalda kennslustund er að ræða. Þá fer hann einnig til sjúkra- og iðjuþjálfa í samliggjandi tíma eftir skóla einu sinni í viku, en þann dag lýkur skóladeginum skömmu eftir hádegi og stofa iðju- og sjúkraþjálfarans er opin til fjögur. Það tekur nemandann um tuttugu mínútur að komast á milli staða með akstursþjónustu, þar sem foreldrar hans eru í vinnu á þessum tíma. Gerum ráð fyrir að tíminn með hvorum þjálfara sé um 45 mínútur í senn. Nemandinn fer fyrr úr kennslustundinni fyrir íþróttatímann til að fara með akstursþjónustu á stofu þjálfaranna. Þar sem um tuttugu mínútna akstur er til baka í skólann hefur nemandinn, einungis um korter til að fá sér hádegismat, fara á salerni og kasta mæðinni eftir oft krefjandi tíma í þjálfun áður en næsta kennslustund hefst. Daginn sem hann fer eftir skóla í þjálfun er hann að koma heim þegar klukkan er að nálgast fimm og á þá heimanámið sitt eftir. Hann nær þar af leiðandi ekki oft að fara í félagsmiðstöðina þar sem hann eyðir löngum tíma í lífsnauðsynlega meðferð og þjálfun.

Hér er um uppspunnið dæmi að ræða, sem gæti samt sem áður átt við um marga af þeim nemendum sem búa við langvarandi fatlanir, jafnvel ævilangt. Af því að dæma má sjá að þessi nemandi missir oft af dýrmætum tíma til félagslegra tengsla við sitt nærumhverfi, sökum þess að hann þarf að fara langar leiðir til að sækja sér þjónustu.

Nú þegar hugmyndafræðin um sjálfstætt líf og skóla án aðgreiningar er óðum að ryðja sér til rúms er nauðsynlegt að skoða hvernig nærumhverfi fólksins er. Sé á ný litið til nemandans sem fjallað er um hér að ofan væri til dæmis hægt að velta því upp hvort ekki væri heppilegt ef sérfræðingar sem veita fólki þjónustu störfuðu hjá sveitarfélögum á borð við Reykjavíkurborg og fengið þjónustu í sínu nærumhverfi? Í tilfelli nemandans sem tekið var dæmi um, gæti það til dæmis falist í því að fá þjónustu sjúkra- og iðjuþjálfans í íþróttahúsinu í sínu hverfi eða jafnvel skólanum ef aðstæður leyfðu. Þá má ekki gleyma því að fleiri gætu notið góðs af þjónustu þessa fagfólks í nærumhverfi. Hvað með unga íþróttamenn sem meiðast og þurfa þessa þjónustu til skamms tíma, eldri borgara og aðra sem sækja félagsstörf eða dagþjónustu í hverfinu sem þetta ætti við um? Ávinningurinn fyrir nemandann væri að hann gæti notað tímann í frímínútum með skólafélögum sínum og farið oftar í félagsmiðstöðina og notið þess starfs sem þar er boðið upp á.

Gott aðgengi og viðeigandi aðlögun eru hlutir sem flestir njóta góðs af. Að hafa sérfræðingana nálægt fólkinu eykur líka möguleikann á teymisvinnu og góðri útkomu þeirra sem þjónustunnar njóta. Að fara með þjónustu til fólksins er betri leið til að mæta því þar sem það er, heldur en að það þyrfti að bera sig eftir þjónustu fagfólks.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. mars 2022