Áttavitalaus landstjórn

Þorsteinn Pálsson

Viðbrögð við hneykslismálum síðustu viku, siðareglubroti innviðaráðherra og bankasölunni, eru fyrstu dæmin um að forsætisráðherra hafi mistekist að leiða pólitísk raflost í jörð.

Ríkisstjórnin hefur ekki pólitískan áttavita til að sigla eftir. Það er veikleiki.

En hitt er öllu alvarlegra að hún á heldur ekki siðferðilegan áttavita.

Óklárað siðareglumál

Forsætisráðherra staðfesti að innviðaráðherra hefði brotið siðareglur ráðherra. Hún segir hins vegar að hver ráðherra hafi sjálfdæmi um hvort slík brot hafi afleiðingar.

Þetta er ekki alls kostar rétt. Það veit forsætisráðherra. Þó að sá sem í hlut á verði að íhuga stöðu sína er það samkvæmt stjórnskipunarreglum hlutverk þingmanna stjórnarmeirihlutans að ákveða hvort ráðherra hefur pólitískt og siðferðilegt traust til að sitja áfram.

Það var undan þessari ábyrgð sem forsætisráðherra leysti sjálfa sig og aðra stjórnarþingmenn. Ábyrgðin hefði kallað á að skýrt yrði út á Alþingi hvaða siðareglur ráðherra má brjóta án afleiðinga eða hvaða viðmið eru höfð um það mat.

Ef einföld afsökun er nóg eru reglurnar bara til skrauts. Vel má vera að fyllri skýringar hefðu dugað. En forsætisráðherra fór bara á flótta. Málið hefur því ekki verið klárað gagnvart Alþingi eins og vera ber.

Brotalamir

Nú er vitað að viðskiptaráðherra varaði samráðherra sína við þeirri siðferðilegu brotalöm að takmarka söluna við afmarkaðan hóp fjárfesta. Hún sá þá þegar allar hliðar málsins og hverjar afleiðingarnar yrðu. Þeir hlustuðu ekki.

Hins vegar hélt viðskipta­ráðherra þessum mikilvægu upplýsingum leyndum fyrir Alþingi. Það gæti verið brot á siðareglum ráðherra.

Þingmenn VG og Sjálfstæðismanna hafa einmitt kvartað undan því að hafa verið ómeðvitaðir um þá hluti, sem viðskipta­ráðherra þekkti.

Einn kaupenda hefur sagt opinberlega að engin rök hafi verið fyrir því að veita þeim afslátt.

Þetta er kórrétt og lagastoðin er að auki hæpin. Siðferðilega brotalömin er augljós.

Hengja bakara fyrir smið

Þingmenn VG hafa krafist afsagnar forstjóra og stjórnar Bankasýslunnar. Rökin eru þau að fjármálaráðherra sé ábyrgðarlaus vegna armslengdarreglu.

Þessi forsenda er hins vegar hreinn tilbúningur. Í lögunum um sölu fjármálafyrirtækja er einfaldlega engin armslengdarregla um þessar ákvarðanir.

Bankasýslan gerir aðeins tillögur og sér um handavinnuna.

Ráðherra tekur aftur á móti allar ákvarðanir um söluferlið og leikreglurnar. Hann ákveður hvaða tilboðum er tekið og honum ber að undirrita samninga. Þessi lögbundna ábyrgð er ekki framseljanleg.

Þingmenn VG vilja því hengja bakara fyrir smið. Það er lægsta stig pólitísks siðferðis.

Vanhæfi

Gagnrýnt hefur verið að faðir fjármálaráðherra var í hópi kaupanda. Þar er hann þó í fullum rétti, bæði lagalega og siðferðilega. Hitt er að fjármálaráðherra kann að hafa verið vanhæfur til þess að taka ákvarðanir í þessu einstaka máli.

Fjármálaráðherra ætlaði að veita takmörkuðum hópi kost á að kaupa þessa ríkiseign með afslætti. Hann vissi að faðir hans var í þeim hópi.

Af því leiðir að skoða þarf hvort fjármálaráðherra átti ekki að víkja sæti á frumstigi ákvarðana um söluferlið.

Þegar Bankasýslunni var ljóst að faðir fjármálaráðherra var á meðal tilboðsgjafa bar henni að flagga hugsanlegu vanhæfi ráðherra. Margt bendir til að í síðasta lagi á þessu stigi hafi ráðherra átt að víkja sæti.

Þetta álitaefni snýst um meginreglu stjórnsýslulaga. Brot á henni er mjög alvarlegt. Skoða þarf hvort það hefur einhver áhrif á gildi sölunnar. En stjórnarþingmenn ákveða hvort það hefur einhverjar pólitískar afleiðingar. Sé um brot að ræða er erfitt að komast hjá því.

Vanræksla

Ráðherra er skylt samkvæmt lögunum um bankasölu að kappkosta að efla virka og eðlilega samkeppni á fjármálamarkaði þegar eignarhlutir eru seldir.

Hagsmunir alls almennings, neytenda og fyrirtækja, liggja mest í því að þessari lagaskyldu sé sinnt.

Hvergi kemur fram að það hafi verið reynt. Viðreisn er eini flokkurinn, sem lagt hefur áherslu á þessa mikilvægu almannahagsmuni í umræðum um söluna.

Ítrekuð vanræksla á að gæta þessarar lagaskyldu hlýtur að koma til rannsóknar og einnig ábyrgð ráðherra samkeppnis- og neytendamála á henni.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. apríl 2022