22 apr Meiri frelsi í frístundastyrk
Hafnarfjörður er ört stækkandi bæjarfélag. Á síðustu árum hefur mikið breyst í bænum og er því mikilvægt að betrumbæta þjónustu við bæjarbúa. Eitt af því er fyrirkomulag frístundastyrkja til barna; bæði útfærsla styrksins og úthlutunarreglur. Það er mikilvægt að gætt sé jafnréttis og komið sé til móts við áhugasvið allra barna.
Frístundastyrkur Hafnarfjarðarbæjar er í dag mánaðargreiðsla, þar sem hvert barn fær um 4.500 kr. á mánuði. Við í Viðreisn teljum það kerfi flókið og ógagnsætt og viljum líta til nágrannasveitarfélaga okkar sem eru með eina greiðslu sem ráðstafað er á hvert barn. Forráðamanni barnsins er frjálst að ráðstafa upphæðinni í eina eða fleiri greinar algjörlega frjálst. Núverandi fyrirkomulag mismunar börnum sem ekki eru í tómstundum alla mánuði ársins eða eru í fleiri en einu áhugamáli. Einstaklingur sem iðkar tómstund allt árið um kring fær 4.500 kr. á mánuði í 12 mánuði eða 54.000 kr á ári. Barn sem æfir vetraríþrótt sem er ekki allan ársins hring er þá í tómstund í c.a 10 mánuði og fær ekki nema 45.000 kr. Ekki eru allar tómstundir á ársgrundvelli og þær eru miskostnaðarsamar. Hættum að flækja hlutina og greiðum styrkinn út í einu lagi. Núverandi fyrirkomulag mismunar börnum og það er óásættanlegt með öllu.
Meira gagnsæi, meiri Viðreisn.