09 apr Sveitarstjórnarþing Viðreisnar
Sveitarstjórnarþing Viðreisnar var haldið í dag, með frambjóðendum flokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar víða um land og öðru Viðreisnarfólki. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, setti þingið og lagði áherslu á grunngildi flokksins.
„Við förum í næstu kosningabaráttu með grunngildi okkar að leiðarljósi, gildi lýðræðis og jafnréttis. Við viljum frjálslynt og fjölbreytt samfélag og atvinnulíf sem er bæði öflugt og sjálfbært, með almannahag og ábyrga stjórn að leiðarljósi.“ sagði Þorgerður í ræðu sinni.
Þorgerður sagði mikilvægt að virða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og þar með ákvörðun Reykjavíkurborgar um flutning flugvallarins í Vatnsmýri. Jafnframt þyrfti að efla samstarf ríkis og sveitarfélaga á sviði velferðarþjónustu og skólamála og tryggja sveitarfélögunum nægjanlegt fjármagn.
Auk þessa kom Þorgerður inn á mikilvægi öflugra almenningssamgangna og kröftugrar uppbyggingar á húsnæðismarkaði, með umhverfis- og loftslagssjónarmið í fyrirrúmi. Hún lauk erindi sínu með áminningu um að kosningabarátta flokksins yrði málefnaleg og drifin áfram af heiðarleika og hugsjónum.
Viðreisn býður fram undir eigin nafni í fimm sveitarfélögum undir eigin nafni, auk þess sem Viðreisnarfólk er í sameiginlegu framboði víða um land, Í Árborg, Hveragerði, Rangárþingi ytra, Borgarbyggð, Ísafirði, Akureyri, Reykjanesbæ og Seltjarnarnesi.