Takk fyrir ekkert

Hún er áhuga­verð þessi sér­sniðna stóra mynd sem rík­is­stjórn­ar­flokk­arn­ir þrír vilja að ein­blínt sé á í tengsl­um við Íslands­banka­söl­una. Að stjórn­völd hafi selt hlut í Íslands­banka fyr­ir 108 millj­arða í tveim­ur at­renn­um. Að það eigi bara að horfa á þá mynd en ekki þetta „smotte­rí“ sem mis­fórst í seinni söl­unni. Þið vitið, þetta með þókn­un upp á 700 millj­ón­ir, óþarf­an af­slátt upp á tvo millj­arða, ógegn­sæi í fram­kvæmd og ósam­ræmi við sett mark­mið með sölu til smárra aðila sem sum­ir eru vin­ir, vanda­menn og starfs­menn þeirra sem báru ábyrgð á söl­unni. Þetta eru smá­atriði í stóru mynd­inni þeirra.

„Ég flyt ykk­ur frétt­ir. Það er rík­is­sjóður Íslands sem held­ur á 42,5 pró­sent­um,“ sagði Bjarni Bene­dikts­son fjár­málaráðherra um hver hefði hagn­ast mest á því að gengi hluta­bréfa í Íslands­banka hefði hækkað eft­ir útboðið. Og þar með skipti það engu að mis­jafn­lega hæf­ir fag­fjár­fest­ar hefðu fengið óþarfa af­slátt og hagn­ast fyr­ir­hafn­ar­laust yfir nótt.

Ég ætla líka að flytja ykk­ur frétt­ir. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur með dygg­um stuðningi Fram­sókn­ar­flokks og VG klúðrað þess­ari banka­sölu þannig að ekki verður lengra gengið í bili. Rík­is­stjórn­in hef­ur hætt við frek­ari sölu á hlut­um rík­is­ins í Íslands­banka. Það eru í sjálfu sér eðli­leg viðbrögð við því sem rík­is­stjórn­in hef­ur svo sann­ar­lega fengið að finna fyr­ir, því að traust al­menn­ings til henn­ar er farið. Rík­is­stjórn sem ber ekki virðingu fyr­ir því að hér þarf að ríkja traust á fjár­mála­markaði end­ar á því að verða sjálf rúin trausti.

Viðreisn hef­ur stutt sölu á hlut rík­is­ins í Íslands­banka. For­send­an hef­ur verið að sal­an yrði á grund­velli al­manna­hags­muna með gegn­sæi, jafn­ræði og traust í fyr­ir­rúmi. Svo fór ekki, eins og þekkt er orðið. Í kjöl­farið er sala á þeim hluta bank­ans sem eft­ir stend­ur í eigu rík­is­ins fyr­ir bí – og þar með sú 100 millj­arða fjár­fest­ing í innviðum og niður­greiðslu skulda sem fyr­ir­huguð var til viðbót­ar. Hvernig ætl­ar rík­is­stjórn­in að mæta þess­ari breyttu stöðu? Með því að draga úr nauðsyn­legri innviðaupp­bygg­ingu? Með frek­ari skulda­söfn­un? Með skatta­hækk­un­um?

Lær­dóm­ur­inn er sá að Sjálf­stæðis­flokkn­um er ekki treyst­andi til að selja rík­is­eign­ir. Þar virðist lít­ill áhugi á að tryggja það lyk­il­atriði sem Viðreisn hef­ur alla tíð lagt áherslu á þegar kem­ur að sölu rík­is­eigna, að sal­an þurfi að vera í þágu al­menn­ings. Ekki út­val­inna.

Takk fyr­ir ekk­ert Sjálf­stæðis­flokk­ur.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. apríl 2022