12 maí Einkarekstur áfram góð hugmynd
Salan á Íslandsbanka misheppnaðist hrapallega. Fyrir vikið hafa margir stjórnmálamenn á hægri vængnum vart þorað að nefna einkavæðingu og einkarekstur á nafn í kosningabaráttunni. Það er viðkvæmni sem kjósendur hafa ekki efni á. Hinn frjálsi markaður er enn góð hugmynd þótt fjármálaráðherra hafi klúðrað hlutafjárútboði. Í rekstri borgarinnar er af nógu að taka í þeim efnum.
Borgin á til dæmis enn malbikunarstöð. Það er engin þörf á því að borgin reki fyrirtæki á samkeppnismarkaði. Við í Viðreisn settum sölu hennar á dagskrá. Búið er að finna stöðinni nýjan stað í samræmi við sáttmála meirihlutans og skoðun á mögulegri sölu er hafin. Réttast væri að fara svipaða leið og gert var þegar Vélamiðstöðin var seld. Þá voru sett almenn ákvæði um réttindi starfsfólks við söluna en fyrirtækið svo selt hæstbjóðanda gegn staðgreiðslu.
Akstur strætó mætti bjóða út í miklu meira mæli. Það er gert víða um heim og reynist vel. Bílastæðahúsin mætti sömuleiðis selja eða bjóða út. Tæknibyltingar í innheimtu bílastæðagjalda eru miklar og innheimtan víða orðin sjálfvirk með hjálp myndavéla. Réttast væri að bjóða út innheimtu bílastæðagjalda. Það gæti aukið skilvirkni og skapað auknar tekjur.
Loks verður að nefna sorpmálin. Það stefnir í að á höfuðborgarsvæðinu þurfi sorpbrennslustöð. Það er ekkert lögmál að það þurfi að vera gert af skattgreiðendum. Hér myndi svokallað PPP-fyrirkomulag henta vel að mati okkar í Viðreisn. Í því fyrirkomulagi myndu einkaaðilar reisa stöðina og reka hana svo í einhverja áratugi með sérstökum þjónustusamningi. Það eru til alþjóðlegir aðilar sem kunna til verka í þessum efnum. Kosturinn við þessa leið er að áhættan lendir þá ekki á íbúum sveitarfélaganna.
Frjáls markaður skilar oft góðum, frumlegum og hagkvæmum lausnum. Full ástæða er til að hafa einkarekstur áfram á dagskrá í Reykjavík. Það verður best gert með því að tryggja sterka kosningu Viðreisnar í kosningunum 14. maí.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. maí 2022